Það var mikil stemning og baráttuandi í fólkinu þegar kröfugangan lagði af stað frá Iðnó í Vonarstræti. Pabbi lét okkur bræðurna bera fána þótt við værum bara litlir strákar og ég varla fánafær. En Steindór bróðir hafði gaman af þessu. Við höfðum heyrt ýmsar sögur af kúgun verkalýðsins en amma okkar, Hreiðarsína Hreiðarsdóttir, hafði verið framarlega í flokki í verkalýðsbaráttunni. Pabbi var einnig ákveðinn verkalýðssinni og fór Lúðrasveitin Svanur, sem hann hafði stofnað, gjarnan fyrir kröfugöngunum á degi verkalýðsins.