Á grænum grundum

Á meðan flensudagarnir gengu yfir, það tók tíu daga, og fólk breiddi sæng upp fyrir haus til að draga úr óbærilegum hóstakviðum, fengust sálir okkar við það að rifja upp gamla og góða daga. Daga, þegar æskan réði ríkjum og ný tegund af tilfinningum spratt fram af ægikrafti. Geisaði eins og stormsveipir og lyftu lífsglöðum unglingum upp af jörðinni.

Við Ásta rifjuðum upp gönguferð, á milli hóstakviðanna. Gönguferð sem við fórum í um hásumar fyrir tveim árum. Gengum þá í okkar eigin æskuslóð og rifjuðum upp góðu dagana okkar þegar við gengum hvert í annars spor, með öran hjartslátt og flæðandi lífstilhlökkun. Langt er nú um liðið. Fundum þó fyrir því hvað endirminningin yljaði okkur og kallaði fram tilfinningu þessara liðnu ára.

Gönguferðin var farin um hásumar. Græni liturinn ríkti og gróðurinn var í fullum þroska. Það rigndi einhver ósköp en regnið var hlýtt. Hófum við ferðina við Barnafossa. Gengum norður yfir hraunið að Hraunhúseyrum, þá niður með Litla-Fljóti, yfir Stínuflöt og niður að Fljótsfossi. Það rigndi einhver ósköp og gerði það málið flókið fyrir myndavélina. En GSM síminn dó. Endanlega. Þoldi ekki rakann. Ræfillinn.

Við Litlafljót

Þessi ferð varð alllöng. Bæði bárum við bakpoka. Var annar með nesti, kaffibrúsa og samlokur, en hinn með myndavélina. Það var gott að vera til þennan dag þótt hvergi væri á okkur þurr þráður. Myndin hér fyrir ofan er frá þessari göngu, hverja við endurtókum nú undir sæng.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.