Það hefur löngum verið sagt að „illur ræðari kenni árunum.” Við lærðum þennan málshátt ungir, drengirnir á Holtinu. Enda áttum við okkar eigin vör. Grímsstaðavör. Þar var alltaf is og þys á vorin þegar rauðmaginn kom. Við hópuðumst þangað niður eftir og tókum þátt í braski karlanna. Færðum fyrir þá hlunna og hjálpuðum þeim að setja bátana og koma þeim upp á kambinn. Seinna lögðu þeir teina niður í sjávarmál og komu sér upp vindu. Þá þurfti bara hlunna á stórstraumsfjöru.
Grímsstaðavör varð síðar meir kennd við Ægissíðu. En þegar við vorum pollar var engin Ægissíða. Þá var bara farið vestur Fálkagötu, niður Súluveg og „niðrað sjó,” eins og það var kallað. Og þar voru rauðmagakarlarnir. Man eftir Guðjóni á Bjarnastöðum og Bjössa syni hans, Jóni stálblýjanti á þrjátíu og sex, Bjarna á fimmtán og Eyvindi á Grímsstöðum. Svo einhverjir séu nefndir.
En þeir voru fleiri og sumir áttu skúra. Flotta skúra sem þeir stóðu í dyrunum á þegar ekki gaf á sjó eða gerðu við net. Og sumir okkar lærðu að reykja á bak við þessa skúra. Uppi á þakinu voru grindur þar sem þeir hengdu grásleppuna á. Sigin grásleppa er herramannsmatur. Þegar karlarnir voru að gera að hlupum við með slorið niður í sjávarmál og gáfum múkkanum. Og kríunni. Gúnegg, gúnegg í kríuskegg, kölluðu þeir sem þóttust skilja kríumál.
En við erum að tala um árar og ræðara. Við nefnilega lærðum allir að róa kornungir. Sumir voru duglegri en aðrir. Karlarnir sögðu okkur til. „Ekki skvetta, snúa árunum, taka löng áratök,” og svo framvegis. Stundum voru tveir á hverri ár. Ef þeir voru mjög litlir. Svo voru til strákar sem aldrei gátu róið eins og menn. Ekki beint og ekki fylgt teininum þokklega þegar verið var að vitja um. Það er nú svo.
Þótt mér hafi gengið vel að róa, sem kom sér vel á Hólmavatni með Erlingi á Hallkelsstöðum, en það var löngu seinna, hefur mér ekki gengið eins vel með myndvinnslu í tölvunni minni. Ákvað því að vanhæfnin væri henni að kenna. Fjárfesti í nýrri. Og nú get ég ekki lengur kennt tölvunni um. Verð að horfast í augu við sjálfan mig.
Svona getur lífið verið magnað.