Þakklætið í hjarta mínu

Stundum er eins og öll tilvera manns fyllist af þakklæti. Það er góð tilfinning. Og hún flæðir. Á slíkum stundum beinist hugsunin til Guðs sem ofar öllu miðlar af gæsku sinni til hárra og lágra. Ekki veit ég um neitt sem gefur meiri lífsfyllingu en trú á Guð. Aftur og aftur fyllist hjartað af þakklæti yfir því að hann skyldi halda út í samskiptunum við mig.

Það var samt ekkert sérstaklega auðvelt að taka við honum.Ýmsir eiginleikar sálar og huga risu upp til að hafna honum. Andmæltu bónorði hans með rökum vitsmuna og þekkingar eða einhvers sem kallað var því nafni. Það var samt ekki svo flókið að samþykkja frásögurnar af Guði og Kristi. Jafnvel ekki að trúa á hann að forminu til. Það gera jú flestir. Trúa á hann að forminu til. En þegar kemur að bónorðinu snúast svo margir til varnar.

Hingað og ekki lengra, segja menn. Og láta sér nægja að ganga í guðshús um jól og páska. Hingað og ekki lengra. Og hafna bónorðinu. Trúa að forminu til. Samt er eins og allir menn fái bónorð frá Guði einhverntóma á ævinni. Sumir oftar en einu sinni. Fer sennilega eftir því hvort þeir skoða sjálfa sig. „Hugsandi maður er sá sem getur skoðað sjálfan sig,” sagði Albert Camus

Lífsaðstæður mínar, þegar ég heyrði um bónorðið fyrst, voru þannig að allt sem ég hafði fram að því talið eftirsóknarvert og metið sem grundvöll og markmið, hafði molnað og leyst upp. Einmitt þegar mest á þau reyndi. Eins og hismi. Tré, hey og hálmur. Brunnu upp. Það er ekki sársaukalaust að horfa á reykinn sem af þeim leggur. Og skilja að maður verður að byggja allt upp frá grunni. En úr hvaða byggingarefni?

„Hví reynir þú að standa á eigin fótum og getur þó ekki staðið?” Þannig segir í Játningum Ágústínusar þegar hann vitnar í „sennu sem fór fram í hjarta mínu, í mér sjálfum gegn sjálfum mér.” Svo er nú það.

En nú geng ég inn í herbergi mitt, loka dyrunum og tilbið föður minn sem er í leynum. Og faðir minn sem er í leynum umbunar mér. Og þakklætið vex enn meir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.