Nýjar sólir og gamlar

Nú tekur þjóðin að afjóla sig. Svo er og í okkar hýbýlum. Ásta líður um húsið og safnar skrautinu saman og flokkar það. Hver flokkur á sinn kassa og hver kassi sinn geymslustað. Hún vandar starfið. Ég get vitnað um það. Hún hefir annast um að skreyta húsið okkar yfir fjörutíu og sjö fæðingarhátíðir frelsarans. Og með því glatt okkur börnin sín. Það brást aldrei. Þetta er samt dálítið öðruvísi þessi árin. Það hefur fækkað í húsinu.

Reyndar hefur Gunnbjörg verið svo örlát að eyða með okkur aðfangadagskvöldum. Sem og frelsarinn. Einu sinni vildi ég taka upp þann sið að leggja á borð fyrir frelsarann, líkt og gyðingar gera fyrir Elía. Það fékk ekki góðar undirtektir. Jólin þessi voru samt eins ljúfleg og hægt var að ætlast til þótt andi sorgarinnar gisti hjartaborgir stórfjölskyldunnar.

Og á nýju ári heldur lífið áfram. Sama „…sólin rennur upp og gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp.“ Og heldur á okkur hita. Eða er það sama sólin? Sagt er að menn stígi aldrei í sömu ána, því vatnið sem þar rann fyrir stundu sé farið og nýtt vatn komið í staðinn. Ég er ekki mjög klár á kjarnabrunanum í sólinni, hvort þar gjósi sömu eldar í dag og brunnu þar í gær. Menn baði sig því kannski aldrei undir sömu sólinni tvo daga í röð?

Hvernig ætli þetta sé með eilífðina? Ætli hún sé gömul eða ný? Ef hún er ný, hvernig getur hún þá verið eilífð? Prédikarinn tala um eilífðar-hús. Hann segir m.a: „…þegar engispretturnar dragast áfram og kaper-ber hrífa ekki lengur, því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss […] og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs sem gaf hann..“ Þessi orð um andann sem Guð gaf, hafa í gegnum árin veitt mér allnokkra forsælu.

Ég hef nefnilega þá trú að menn séu þannig útbúnir að innst inni í þeim, sál, huga og hjarta, sé móttökustöð sem þeir af vanþekkingu virkja ekki. Og það sé ekki fyrr en maðurinn skírist í eldi, hismi hugans brenni burt og Guð blási anda sínum í nasir honum, að hann fæðist að nýju og móttökustöðin verði virk. Samtal brúðar og brúðguma í Ljóðaljóðunum gefa nokkra mynd í þessa veru af sambandi manns og Guðs. Brúðgumi og brúður tala saman. Þar segir meðal annars:

„Seg mér, þú sem sál mín elskar,
hvar heldur þú hjörð þinni til haga,
hvar bælir þú um hádegið?

(„Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið““)

Samtal brúðar og brúðguma heldur áfram:
„Hversu fögur ertu, vina mín, hversu fögur ertu!
Augu þín eru dúfuaugu.“

Brúðurin svarar:
„Hversu fagur ertu, unnusti minn, já og indæll.
Já, iðgræn er hvíla okkar“

(Jesús sagði: „En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.“)

Sýnist mér því að á nýju ári höfum við, þrátt fyrir allt, stólpa aldanna til að treysta á, því að: Þrennt er það sem varir og fellur aldrei úr gildi: Trú, von og kærleikur. Elska.
En þeirra er elskan verðmætust.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.