Úr einum skáp í annan

Það er stundum veðrasamt við Horngluggann okkar Ástu. Uppi á sjöundu. Það á nú samt eingöngu við veðrið fyrir utan. Það var slæmt í morgun. En inni ræddum við andlát vina okkar, en fjórir þeirra féllu frá á síðustu tveim mánuðum ársins 2005. Fólk sem hafði verið samferða okkur um árabil og mótað landslag í huga okkar. Og var okkur kært. Við rifjuðum upp samvistir við þessa látnu vini, örlög manna og „undarlegt ferðalag.“

Í framhaldi vitjuðu okkar hugleiðingar um hugtakið frelsi. Og við reyndum að skilgreina fyrirbærið. Margir tala fjálglega um frelsi. Rétt eins og það sé eitthvað sem hægt er að kaupa úti í búð. Eða sækja í stjórnmálaskoðun eða jafnvel í trúarafstöðu. Við nánari skoðun sýnist okkur að enginn maður sé frjáls. Og að hann geti ekki verið það. Geti ekki lifað án einhverskonar kerfis sem umlykur hann og hann upplifir sem persónulegan umbúnað sinn og styður sig við. Og hugsar: Ég er.

Slíku kerfi er hægt að líkja við skáp. Og ef menn geta ekki lifað án skáps, er þá ekki hægt að segja að menn lifi í ánauð skápa? Og þegar og ef menn upplifi byltingar í hugarfari og skilningi og geri í framhaldi af þeim breytingar á lífsformi sínu, þá séu þeir einfaldlega að koma út úr einum skáp til þess að fara inn í annan. Ekkert frelsi nema til að velja. En eru menn frjálsir þegar þeir velja?

Hvaða kerfi var það sem stýrði ákvörðun þeirra? Ásta lagði til málanna að fyrsta kerfi mannsins væri kerfi foreldra hans, síðan menningarumhverfis hans, þá hjónabands, afkomubaráttunnar og hvað það nú allt heitir. Það er ekki fyrr en maðurinn verður gamall að hann losnar frá sumum þessara kerfa og þá hefst ánauð hrörnunar og allt sem henni fylgir. Þetta sagði Ásta.

Við vorum komin þangað í morgunspjalli okkar að eina ljósið, í öllu basli mannsins, væri að sum kerfin sem hann kysi sér veittu ánægju. Hamingju, sem mældist með viðmiðun við eitthvert af þeim kerfum sem mennirnir búa við. Í framhaldi af því vaknar svo enn ein spurning, reyndar fræg og löngu kunn: Hvað er hamingja? Og enn, í hvaða skáp býr hún?

Þarna urðum við að hætta vangaveltunum. Klukkan sló átta og þar með kominn tími til að hafa sig til fyrir annir dagsins. Við þykjumst samt geta skilið að það að vera ósáttur við skáp og taka sér vald til að skipta um skáp, og skipta um skáp í framhaldi af því, hlýtur að veita sjálfinu nokkra uppreisn og sælukennd. Einskonar munnbita af frelsi. Eða hvað?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.