Hjálpa vantrú minni

Það er ekki einfalt fyrir fólk að fylgja hugsun og orðum Krists. Að jafnaði fellur það ævinlega í þá gröf að taka sjálft sig fram fyrir hann jafnvel þótt það hafi orð hans á vörunum daginn út og daginn inn. Það er nefnilega mikill vandi og krefst hugsunar og sjálfsafneitunar að taka orð Guðs fram fyrir sjálfsdýrkun og sjálfsaðdáun.

Um þetta eru ýmis dæmi í ritningunum. Á einum stað segir frá því þegar Kristur leggur til atlögu við faríseana og ásakar þá fyrir trúleysi. Þeir gátu ekki í einlægni elskað Guð og látið sér nægja að þiggja heiður frá „hinum eina sanna Guði”, heldur kusu þeir að taka við heiðri hver af öðrum, „…því þeir eru af jörðu og tala af jörðu.”

Guðspjallamaðurinn birtir skýra mynd af áhuga manna á að þiggja heiður hver af öðrum: „Samt trúðu margir á hann, jafnvel höfðingjar, en gengu ekki við því vegna faríseanna, svo að þeir yrðu ekki samkundurækir. Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.” Þótt gyðingarnir segðust leggja traust sitt á það öryggi sem Lögmál Móse lofaði öllum þeim sem héldu lögmálið, var það traust þeirra falskt.

Hefðu þeir treyst á Lögmálið þá hefðu þeir átt að taka mark á spádómi þess í 5. Móseb.18:15, þar sem segir: „Spámann mun Drottinn Guð þinn upp vekja meðal þín, af bræðrum þínum, slíkan sem ég er. Á hann skuluð þér hlýða.” En vanhæfni til að skilja dýpri meiningu Lögmálsbókanna hindraði þá í að þekkja Jesúm og meðtaka boðskap hans.

„Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá hinum eina sanna Guði?” Já, það er vissulega ekki einfalt að fylgja hugsun og orðum Krists og það er mikill vandi sem krefst hugsunar og sjálfsafneitunar að taka orð hans framfyrir sjálfsdýrkun og sjálfsaðdáun. „Ég þigg ekki heiður af mönnum…” sagði Jesús.( Jóh. 5:41-44.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.