Hrífandi málverkasýning

Það er hrífandi málverkasýning á Kjarvalsstöðum um þessar mundir. Myndir eftir færeyska málarann Mikines frá Mykines-eyju. Þarna eru dimmar myndir frá dánarbeðum, þar sem andrúm sorgarinnar ríkir, húsamyndir frá Mykines-eyju fullar af sól og glaðlegum litum. Og portrett.

Við dánarbeðinn, frá 1944, sýnir fólk standa umhverfis rekkju þar sem látin liggur. Skuggi hylur hluta andlits þeirra. Fyrir jarðarför, frá 1935, stór mynd og dimm, full af sorg og söknuði. Örlítil birta kemur inn um ljóra og lýsir daufri birtu á eitt andlit. Aðrir eru í skugga, dimmu, lotnir í herðum, daprir, þöglir. Þögnin sést í myndinni

Við dánarbeðinn

Í syðsta hluta salarins eru húsamyndir frá Mykines-eyju. Þar er sólskin og birta ríkjandi. Glaðlegir lifandi litir. Hús og græn tún. Á einum stað er myndin Regn. Hún er frá 1934. Kallar fram minningu um þessa frægu þoku sem íslendingum finnst alltaf vera í Færeyjum.

Þá er og hafið nærri. Skipin láta úr höfn. Þrjú skip fyrir fullum seglum. Fara í langa útilegu. Í forgrunni standa í hnapp, kona, móðir, barn, spurul, – koma skipin öll að landi með fólkið okkar, maka og syni?

Þá er þarna Færeyskur dans, eða dansur. Kraftmikill hringdans. Gæti verið Ólafur reið með björgunum fram. Litirnir glæsilegir og hreyfingin. Lengst dvaldi ég við portrett- myndina Kona frá Mykines-eyju. Horfði á konuna og konan horfði á móti. Maður veltir fyrir sér lífi íbúa á afskekktri eyju lengst úti í hafi. Og spyr myndina af konunni, í hljóði – eða málarann, hvað hann er að segja með óræðum svip konunnar.

Niðurstaða mín um sýninguna er að þótt ég hafi ekkert vit á myndlist þá hafði ég mikla ánægju af þessari sýningu á 50 verkum Mikiness. Fer áreiðanlega aftur. Enda ókeypis aðgangur.

Eitt andsvar við „Hrífandi málverkasýning“

  1. Sæll Óli ég óska þér og fjölskildu þinni gleðilegra páskahátíðar. Það er alltaf jafngaman að skoða síðuna þína og takk fyrir Óli. Kær kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.