Hinn óði. Vegna trúar sinnar

Það þykir fáránlegt að taka mark á draumum. Og óskynsamlegt. Ég hef alltaf forðast það. Konurnar í bernsku minni staðhæfðu þó að sumir draumar segðu fyrir um atvik og örlög manna.

Fáeinir draumar hafa ræst í lífi mínu. Sá áhrifamesti var þannig að mig dreymdi ég synti í miklu vatni. Vindur var á móti. Öldurnar brutu á mér. Ég saup á. Eftir alllanga baráttu við vatnið kom ég að landi við hlaðinn bakka. Þar kraup maður og teygði aðra hönd sína í átt til mín. Ég tók í hana og hann hjálpaði mér upp á bakkann. Maðurinn hét Pálmi.

Samkvæmt visku fyrrgreindra kvenna í bernsku minni, táknaði vatn og sund í vatni, mikla erfiðleika. Mannsnafnið Pálmi aftur á móti sigur. Og þarna sýndist mér að eftir kenningum kvennanna væri ég með pálmann í höndunum. En eins og allir vita þá þýðir máltækið „að vera með pálmann í höndunum“ að hafa unnið mikinn sigur. Það var síðar, eftir mikil boðaföll í lífi mínu, sem ég upplifði það að hafa pálmann í höndunum. Pálminn er trú mín á Jesúm Krist.

Í dag er pálmasunnudagur. Hann dregur nafn sitt af atburðum í frásögu Biblíunnar af því þegar Kristur kom til Jerúsalem til að vera viðstaddur minningarhátíð þjóðar sinnar um brottförina frá Egyptalandi, frelsun úr fjötrum og undan kúgun Egypta.

Pálmasunnudagur er fyrsti dagur dymbilviku, hljóðu viku. Þá tek ég fram fjóra hljómdiska með tónlist við hið sígilda ljóð lögfræðingsins Jacopone da Toti, f. 1230, sem var kallaður hinn óði. Vegna trúar sinnar. Sjá hér Á þessum diskum eru óratoríur við Stabat Mater eftir eftir ýmsa stórkostlega höfunda. Ég spila þessa hljómdiska í hljóðu viku, anda varlega og les með trega Jóhannesarguðspjall frá þrettánda kafla og fram að orðum Maríu Magdalenu á páskadag: „Ég hef séð Drottin.“

2 svör við “Hinn óði. Vegna trúar sinnar”

  1. Kæra Jóhanna. Megir þú og fjölskylda þín einnig eiga góða og elskuríka páska. Takk fyrir hlý orð og vinsemd.
    Kær kveðja frá okkur Ástu,
    Óli.

  2. Góð hugleiðing Óli, Guð gefi ykkur Ástu gleði- og innihaldsríka páska. kv jgó

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.