Um aðgát í skrifum

Betri helmingurinn átti afmæli síðastliðinn mánudag. Hún fékk ótal SMS skeyti og símtöl frá fjölskyldu og vinum og aðdáendum. Þá fékk hún miðlungs dekurmáltíð hjá bónda sínum þegar hún kom heim úr vinnu. Andrúmsloftið var hlýtt og vinsamlegt. Og auðvitað bækur.

Henni bárust einar sex bækur. Það er svo ánægjulegt fyrir bóndann því að með bókunum fær hann hlutdeild í gjöfunum. Það gleður kallinn. Einn sonanna var svo örlátur að koma við um kvöldið, ásamt eiginkonu, og færa móður sinni Minnisbók Sigurðar Pálssonar. Ég var svo heppinn að frúin var á kafi í Harðskafa svo að ég fékk að lesa Minnisbókina.

Sigurður fékk íslensku bókmenntaverðlaunin 2007 fyrir bókina. Án efa er hann vel að þeim kominn. Lífsganga hans, menntun og ritstörf eru áreiðanlega miklu meira virði en einhver blesi úti í bæ getur áttað sig á. En hvað um það. Við lestur bókar Sigurðar kom mér í hug Í reiðuleysi í París og London, eftir Georg Orwell, sem kom út á íslensku 2005 og ég naut mjög.

Kannski er ekki sanngjarnt að bera þær saman. Bók Orwells er kraftmikil og ástríðufull. Bók Sigurðar mild og mjúk. Textinn á einhvern hátt gisinn. Hvað um það. Fólk tjáir sig á mismunandi vegu. Lesendur móttaka bækur á mismunandi vegu. Þannig er lífið.

Á þessum dögum hæstaréttardóms og skylminga meinhorna áræðir maður ekki að birta bút eða kafla úr annarra manna bókum. Kafla sem heilluðu mann og hrifu og maður vildi svo gjarnan vekja athygli vina sinna á. Því miður.

2 svör við “Um aðgát í skrifum”

  1. Takk fyrir þetta innlegg Ármann. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig Háskólinn tekur á málinu gagnvart Hannesi. Einnig hvort allir muni sitja við sama borð við notkun tilvísana. Einhvernveginn hafði ég á tilfinningunni að fleira hafi knúið þetta mál en réttlætið eitt og sér.

  2. Hvað sem segja má um dóminn um Hannes þá bannar hann ekki tilvísanir almennt. Þetta snýst um hversu langar og miklar þær mega vera. Það er alveg ljóst að það er löglegt að birta texta sem er innan við blaðsíða enda sé höfundar getið en best er auðvitað að semja við höfundinn um það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.