Grimmir og gráðugir hundar

Við gengum skyldugöngu okkar í dag, ég og Beinagrindin. Enda hafði læknirinn, sem sagaði í bakið í okkur, lagt til að við reyndum að ganga daglega. Það væri nauðsynlegt fyrir hrygginn. Í morgun fórum við nýja leið.

Við götuna sem við völdum er röð af einbýlishúsum. Þau eru öll flott og vafalítið á verðbili 40 til 60 milljónir króna, eða í kringum 500 þúsund evrur (svo við fylgjum umræðu dagsins). Umhverfis þessi hús er að sjálfsögðu allstór garður og í honum heitavatnspottur og hlóðir og grill. Þá er hann girtur af með tveggja metra háu tré grindverki. Göngustígurinn sem við gengum liggur fast við grindverkið.

Þegar við vorum komin að öðru húsinu í röðinni þustu tveir stórir hundar með feikna látum í átt að okkur, geltandi og urrandi. En Guði sé lof fyrir að þeir voru innan við grindverkið. Ekki gott að segja hvað annars hefði gerst. Okkur dauðbrá, mér og Beinagrindinni, því hundarnir létu óðslega. En við héldum áfram og þegar við vorum að byrja að jafna okkur á ósköpunum, líklega við fimmta húsið í röðinni, endurtók sagan sig.

Ósjálfrátt færðum við okkur fjærst á göngustíginn og sýndist að kvikindin gripu með kjöftunum í spýturnar neðst í grindverkinu. Beinagrindin þrýsti sér upp að mér og spurði stamandi: „Þetta eru brjáluð kvikindi. Af hverju láta þeir svona?“
„Ætli þeir girnist ekki beinin í þér.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.