Hvaða misseri eru það?

Þurfti að fara fyrir Beinagrindina í Heilsugæslustöð í morgun. Hún kemst ekki af án verkjalyfja eftir að sagað var inn í hrygginn á henni fyrr í vetur. Nú lærði ég hvað Guðlaugur heilbrigðisráðherra er flinkur og útsjónarsamur stjórnmálamaður. Til að börn fái þjónustu heilsugæslulæknis ókeypis, færði hann kostnaðinn einfaldlega yfir á eldri borgara. Flottara hefði mér þótt að færa kostnaðinn yfir á eftirlaun alþingismanna. Þar er nóg af peningum.

Við fundum fyrir þessu í morgun, ég og Beinagrindin. Þurftum nú að greiða þúsund krónur fyrir viðtal við lækni í stað 750 áður. Það er 33.5 % hækkun. Það sem ég átta mig ekki alveg á er af hverju Guðlaugur réðist á eldri borgara? Af hverju felldi hann ekki einfaldlega niður komugjöld fyrir börn? Varla trúir hann því að eldri borgarar séu aflögufærir eins og ríkisstjórnin, sem hann situr í, skammtar þeim naumt.

Svo heyrðist í hádegisútvarpinu sagt frá þróun skattamála, þar sem fram kom að á Íslandi hafa allar skattabreytingar, s.l. sex ár, verið gerðar hinum efnameiri til hagsbóta, en skattbyrði hækkuð á barnafólki, fátækum og öldruðum. Öfugt við þróun í flestum öðrum ríkjum OECD landa.

Loks er sagt frá því í fréttum að Ellert B. Schram hafi spurt Geir H. Haarde í þinginu hvað liði kjarabót fyrir eldri borgara. Og Geir hafi svarað að hún kæmi til framkvæmda á þessum misserum. Hvað misseri eru „þessi misseri?“ Og verður ekki búið að taka þær bætur af gamla fólkinu áður en það fær þær, samanber tilfærsluna á komugjöldum á heilsugæslustöðvar?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.