Tvær ljósmyndasýningar og Kumbh Mela

Hóf gærdaginn í Gerðarsafni á sýningu Blaðaljósmyndarafélagsins. Fór svo síðdegis á sýningu Einars Fals í Grófinni. Kannski hafði ég of miklar væntingar, en einhvern veginn fann ég ekki fyrir áhrifunum sem ég vonaðist eftir og vil gjarnan upplifa á stefnumóti við list. Í hvaða formi sem hún er.

Það er líka hugsanlegt að aldurinn sé farinn draga úr hrifnæminu. Samt hef ég gert mér vonir um að sá hluti sjálfsins héldi virkni alveg fram í andlátið. Fréttamyndir blaðaljósmyndaranna eru að sjálfsögðu teknar þegar frétt er glæný og heit og textinn, frásögnin af viðburðinum, kyndir undir myndinni, setur meira líf í hana og hún grípur mann. Góð mynd með frétt er sterk „impression.“

Á sýningu Einars Fals er önnur tegund af andrúmslofti. Myndir hans eru teknar um víða veröld og í Keflavík og Vestmannaeyjum. Við Ásta fórum tvo hringi um salinn. Ég legg ekki í að leggja dóm á myndirnar en stoppaði þrisvar við bænastund Hindúa, Kumbh Mela, en þar voru samankomnar 20 milljónir manna til að ákalla Guð sinn.

Ég leyfi mér svo að kvarta fullum hálsi yfir sneplunum sem fylgja myndunum og kynna þær og höfunda þeirra. Þeir eru alltof litlir og letrið of smátt. Þá er staðsetning þeirra svo neðarlega á veggjunum að líkast er því að aðeins sé reiknað með dvergvöxnum sýningagestum og börnum. Þetta gildir yfir báðar sýningarnar.

Loks er að nefna sýningu á stigaganginum sem þægilegt er að að skoða á niður leið. Myndir frá 1916 og þar um kring. Skemmtileg.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.