Gegnsósa í nostalgíu og vantar ráð

Í einmanaleik mínum í morgun, aleinn með Beinagrindinni undir sæng, rifjaði ég upp atvik frá Bjargi við Suðurgötu þar sem við áttum heima. Ég var tíu ára. Við vorum fátækt fólk og þegar okkur bræðurna tók að langa eitt og annað sem aðrir krakkar á Holtinu fengu, þá lærðum við að horfa í aðrar áttir.

Undir sænginni í morgun rifjaði ég upp þegar mig fór að langa að spila á orgel. Pabbi fann úrræði til að leysa málið til bráðabirgða. Hann varð sér úti um fjöl, svipaða að stærð og nótnaborð á orgeli. Fjölina klæddi hann með vaxdúk, eins og þá tíðkaðist að hafa á borðstofuborðum, lét bakhliðina sem var hvít snúa út. Síðan teiknaði hann hvítu nóturnar á dúkinn og loks smíðaði hann svörtu nóturnar og kom þeim fyrir á borðinu. Þarna var komið óaðfinnanlegt nótnaborð. Auðvitað komu engin hljóð úr þessu ekki-orgeli en pabbi lét mig æfa fingrasetningu og kenndi mér nóturnar. Ég hélt út í nokkra mánuði að sitja við fjölina en svo dvínaði áhuginn með vorinu þegar fuglarnir tóku að syngja.

Við Beinagrindin ákváðum í morgun, í framhaldi af þessum bernskuminningum, að fara í búðaflakk og skoða hljómborð. Hófum ferðina í Rín, verslun Magga Eiríks, og skoðuðum Roland. Sagði ég syni Magnúsar, sem var við afgreiðslu, að ég væri gegnsósa í nostalgíu, langaði að skoða hljómborð sem væri gott og kostaði lítið. Hann sýndi mér eitt, E-09. Það er með ótal tökkum og getur verið orgel eða píanó, blokkflauta eða gítar og jafnvel allt í senn. Nokkuð dýrt miðað við kaupmáttinn.

Næst fór ég í Hljóðfærahúsið í Síðumúla. Það er meiri feikna verslunin. (Keypti fyrstu hljómplötu ævi minnar í Hljóðfærahúsinu sem þá var í Bankastræti. Það var 78 snúninga plata með laginu Fjarlægð, eftir Karl Ó. Runólfsson, sem Erling Ólafsson söng). Lipur afgreiðslumaður sýndi mér og útskýrði allt sem ég spurði um. Mælti með Yamaha græju, sem ekki er til í augnablikinu, „því miður“ sagði hann. Með það fór ég.

Næst fór ég í Heimilistæki í Sigtúnshöllinni hans Sigmars sáluga. Leyst ekki á úrvalið þar og ekki heldur í Tónastöðinni. Nú ætlum við Beinagrindin að taka nokkra daga í að reyna að kæfa löngunina. Höldum samt að gaman væri að vita hvort merkið, Roland eða Yamaha, er talið vænlegra fyrir sérkennilegan eldri borgara sem kann að spila Gamla Nóa.

Hafi einver tillögu eða ráð væri gaman að heyra um það.

4 svör við “Gegnsósa í nostalgíu og vantar ráð”

  1. Persónulega hef ég góða reynslu af Yamaha hljómborðum, en Roland og Korg eru yfirleitt í dýrari kantinum að ég held. Enda gjarnan mun meiri tæki og algeng sjón á sviði hljómsveita.

  2. Ráðið sem mig vantar er ekki um útlit, heldur eftirfarandi:

    61 nóta / 614 hljóð + 256 (GM2) / 47 tegundir effekta / 32 Mb minni / 130 takta / 16 rása upptaka /
    USB tengi / og fleira.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.