STASI – DAS LEBEN DER ANDEREN

Það er magnþrungin reynsla fyrir mann á efri árum að horfa á kvikmyndina „the lives of others“. Hann heldur niðri í sér andanum og langar mest að fara frá skjánum og hætta að horfa. Okkur Ástu var lánað myndbandið um helgina. Við horfðum á myndina á sunnudag.

Við ræddum ekkert allan tíman sem myndin gekk. Það er óvenjulegt því við erum gjarnan saman í að horfa. Þá hlægjum við, brosum eða klökknum saman. Það var ekki þannig yfir þessari mynd. Og eins og fyrr sagði þá áætlaði ég að fara frá henni, hvað eftir annað, en lét mig hafa það að horfa.

Líf annarra

Myndin, „DAS LEBEN DER ANDEREN“ eða „LÍF ANNARRA“ eins og hún heitir á Íslensku, er aldeilis mögnuð mynd. Hún hlaut Óskarsverðlaun 2007 sem besta kvikmyndin á erlendu tungumáli. Einnig 33 önnur verðlaun á kvikmyndahátíðum um allan heim.

Myndin fjallar um lífið í Austur Þýskalandi á áttunda áratugnum. Og þótt maður hafi heyrt margt og miður fallegt frá stjórnarháttum þar í landi fyrir fall Berlínarmúrsins, þá er nálægðin við einstaklingana í myndinni yfirþyrmandi.

Upp í hugann komu nöfn íslenskra kommúnista sem höfðu sig mest í frammi í stjórnmálum á Íslandi á þeim árum sem myndin greinir frá. Og sýnist manni það gjörsamlega óskiljanlegt hvernig í ósköpunum þeir gátu orðið vinir þeirra vinnubragða sem stjórnvöld í Austur Þýskalandi viðhöfðu með borgarana.

Ég hvet fólk til að sækja myndina út á leigu og horfa á hana. Sjón er sögu ríkari.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.