Við skemmtum okkur fjarskalega vel í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Leikararnir gerðu þetta af svo mikilli snilld, allir sem einn, svo vel og yndislega að það var eins og hjarta manns fylltist af ást til þeirra. Já, mikil feikn var gaman að sjá hópinn skila Ivanov, leikriti Antons Tsjekhovs, í leikgerð – væntanlega hópsins alls,- hafi ég skilið orð leikstjórans, Baltasars, rétt.
Það sem ég sagði um Pétur Gaut fyrir tveim árum endurtek ég hér: „Nú gefur maður hæstu einkunn. Annað er ekki hægt. Útfærslan, leikurinn, leikararnir, grannir og feitir, sviðsmyndin, ljósin og hljóðin. Allt gert með glæsibrag. Bráðskemmtilegt. Afar ánægjulegt.“
Þrátt fyrir að leikritið er harmsaga og sorgartónn umkomuleysis einkenni það, þá eru samtölin og leikurinn svo hnyttin og fyndin að leikhúsgestir veinuðu af hlátri þegar best gekk. Og það gekk alltaf best. Einnig í atriðum alvörunnar. En þá mátti heyra hina frægu saumnál detta.
Mörg okkar kannast við, og sumir þekkja allvel, þema leikritsins. Sjálfselsku og sjálfsvorkunn einstaklinga, umkomuleysi drykkjuvina og tilgangsleysi tilverunnar sem hópurinn hefur sammælst um að lifa í. Fjórtán flöskur af vodka eru drukknar, „þetta kallar maður nú gott vodka“, segir Ilmur og hristist af hrolli þegar hún hvolfir í sig úr glösunum. Það er samt aldrei of leikið. Og salurinn skellihlær.
Þótt leikritið sé skrifað af höfundi fæddum 1881, þá smellpassar það inn í íslenska tilveru 2008 í þessari leikgerð Baltasars. Við þekkjum það af reynslu að það er fullt af hópum, eins og þessum sem leikritið fjallar um, í samtímanum. Hópum sem samanstanda af fólki sem hefur búið sér til lífsmunstur sem það sjálft veit að er einskis virði, þótt það lifi og hrærist í því.
Það er langt síðan ég hef skemmt mér eins vel. Sama sagði Ásta mín og við rifjuðum upp atriðin í morgun, við Horngluggann. Full af aðdáun og þakklæti.