Vilhjálmur frá Skáholti

Í síðasta Kiljuþætti Sjónvarpsins fékk ljóðskáldið Vilhjálmur frá Skáholti talsverða umfjöllun í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá fæðingu hans. Það var mjög vel við hæfi. Hefði umfjöllunin fengið bestu einkunn ef þáttarstjórnandinn hefði sleppt því að margendurtaka og leggja áherslu á að Vilhjálmur hefði verið „róni“.

Nú er það svo með þætti af þessum toga, að það fólk sem sér um þá, velur efni og vinnur úr því, er svo til alfarið að vinna úr efni annarra manna. Það þiggur laun og vinsældir af hugverkum annarra. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga, en væri ekki sjálfsögð virðing fyrir höfundunum að velja fremur mildandi orð um veikleika þeirra og sjúkdóma.

Viðmælendur töluðu að mestu með sanngirni og virðingu um Vilhjálm. Bragi alltaf hnyttinn. Einnig voru leikin nokkur lög þar sem þekktir söngvarar sungu texta Vilhjálms. Var sérleg undirstrikun gerð við niðurlag ljóðsins „Jesús Kristur og ég“, sem Magnús Eiríksson söng við eigið lag. Það var vel til fundið. Tveir góðir listamenn.

Sjálfslýsing Vilhjálms hefði nægt til að gefa þá mynd af honum sem þörf var á. Skoðum fyrsta erindið í ljóðinu „Jesús Kristur og ég.“

„Hér sit ég einn, með sjálfstraustið mitt veika,
á svörtum kletti, er aldan leikur við.
Á milli skýja tifar tunglið bleika,
og trillubátar róa fram á mið.
Af synd og fleiru sál mín virðist brunnin.
Ó, sestu hjá mér, góði Jesú, nú,
því bæði ertu af æðstu ættum runninn
og enginn þekkir betur Guð en þú.

Síðustu línurnar í kvæðinu þekkja svo allir eftir flutning Magnúsar Eiríkssonar:

„…
Og úr því að þeir krossfestu þig, Kristur,
hvað gera þeir við ræfil eins og mig?“

Þá er og lærdómsríkt að skima inn í ljóðið Öreigi, eftir Vilhjálm.

Öreigi

„Ég er einn úr öreigastétt,
allslaus ég flækist um torg.
Af kulda mig næðir. Af náð varð ég til,
svo nísti mig hrylling og sorg.
Af klæðnaði fár og fegurðargnótt
um fölnaðar vonir ég syng.
Það blæðir úr iljum, bölið er mitt,
á botnlausum skónum ég geng.

Ég forðast ætíð fjölsótta braut,
fer þar sem kyrrðin er mest.
Þar fæ ég að gráta visnaða von
og vini, sem reyndust mér best,
en eru nú helveg hafnir á burt
hörmungarstigunum frá,
svo einsamall myrkranna milli ég fer
matarlaus strætunum á.

Þú eilífi guð, sem allt færð séð,
sem af elsku lífgar hvert strá.
Er það ráðstöfun þín að rekinn ég er
eins og rakki húsdyrum frá?
Af bræðrum mínum suma ég sé
í sól, þar sem lífsgleðin fer.
Hvað hefi ég, guð minn, gert svo vont
að geislarnir nái ekki mér?

Eitt andsvar við „Vilhjálmur frá Skáholti“

  1. Sæll,

    Kærar þakkir fyrir þennan góða pistil. Mjög réttmæt athugasemd hjá þér.

    Með kveðju,
    Þórir Bergsson (Vilhálmssonar frá Skáholti)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.