Man ég, man ég tíma tvenna

Sum af ljóðum Davíðs Stefánssonar sitja fastar en önnur í minnissvæði heilans. Sum þeirra hrifu lesandann með sér og vöktu sterkar tilfinningar. Ekki síst þegar lesandinn var ungur.

„Hrærekur konungur í Kálfsskinni“ er eitt af þeim ljóðum og það er gaman að rifja upp hvernig línurnar í því kvæði bergmáluðu inni í höfuðskeljunum dögum saman.

„Man ég, man ég tíma tvenna.
Tár úr blindum augum renna.
Íslendingar einskis meta
alla, – sem þeir geta.“

Á öðrum stað í ljóðinu segir:

„…
Blóðug eru böðlasporin.
Burt var tunga úr einum skorin.
Þá var kristinn sálmur sunginn
og síðan Máríukvæði,
svo voru augun úr mér stungin, –
augun mín bæði.“

Þá er „Hallfreður vandræðaskáld“ einnig eftirminnilegt ljóð. Þar segir m.a:

„…
Auðmýkt átti ég stundum,
en aldrei á mannafundum,
virti lítt venjur og siði,
varð fáum að liði.
Oft var ég þeim verstur,
sem vildi ég reynast bestur.“

Og síðar í sama ljóði:

„Oft ég Kolfinnu kyssti,
kom í selið – og gisti.
Blóðheitir munnar mættust.
Maður og kona sættust.
Tvö hjörtu þar eiða unnu.
Tveir andar þar saman runnu.
Tveir líkamar urðu að einum.
– Ást er heitust í meinum.“

Þótt ég grípi niður í þessi tvö þá skipta þau tugum sem eru sífellt ný og í stöðugum samhljómi við samtímann. Ljóð sem hrifu og hrífa, sum glettin og leikandi létt eins og „Bréfið hennar Stínu“: „Ég skrifa þér með blýant því blek er ekki til, …“ Önnur eru harmþrungin og sum hafa fest rætur í þjóðarsálinni og allir kannast við:

Á föstudaginn langa

„Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.

Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
….

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég mikil undur sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.“

Það er lotning í anda orðanna. Þau eru opin og skiljanleg og lesandi þeirra fyllist aðdáun á skáldinu sem mótaði andann með orðum. Eða er hann á milli orðanna? Hvar sem hann er þá nær hann að tengjast lesandanum og hrífa hann með sér. Kannski tek ég mig á og reyni að lesa bókina um Davíð Stefánsson, „Snert hörpu mína“. Átta mig samt ekki alveg á þessu hiki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.