DAGUR VONAR

„Mamma mín, mamma mín, hvaða dagur er í dag?“
Það var sterk upplifun að sjá og heyra leikritið Dagur vonar eftir Birgi Sigurðsson. Krafturinn í verkinu kom verulega á óvart. Textinn og táknin mögnuð og leikurinn stórkostlegur. Tilvitnun í leikskrá í ljóð Thomasar frá Celano; Dies irae, dies illa, / solvet saeclum in favilla, sem Matthías Jochumsson þýðir: Dagur reiði, dagur bræði, / drekkir jörð með logaflæði, gefur tóninn í glímunni sem háð er á leiksviðinu.

Í verkinu er fjallað um hina sígildu hugsun mannsandans um dag reiðinnar og spurninguna um hver fái staðist á degi þeim. Hvort einhver hafi von og komist af þegar „Dagur reiði, dagur bræði, / drekkir jörð með logaflæði.“ Leitast höfundur við að svara því.

Ekki var ég svo heppinn að sjá uppfærsluna í Iðnó 1987 og því með nokkurri eftirvæntingu sem við Ásta lögðum leið okkar í Borgarleikhúsið í gær, sunnudag. Þótt Nýja sviðið í leikhúsinu fari verulega í taugarnar á mér, þá hvarf sú tilfinning um leið og leikurinn hófst. Sviðsmyndin vakti spurningar til að byrja með en þegar verkið var komið í gang féll hún vel að glímu „logaflæðisins“.

Leikararnir standa sig allir með mikilli prýði og er ekki hjá því komist að hrósa Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, sem leikur Láru, sérstaklega, en hlutverk hennar er öxulhlutverk verksins. Sagan sem sögð er gerist árið 1955. Hún er jafnframt saga allra áratuga síðustu aldar og verður einnig saga allra áratuga þessarar, því „dagar reiði og dagar bræði“ eru á öllum tímum virkur þáttur í mannlegum samskiptum.

„Reynir: Ég þoli ekki menningarpíkur. Ég verð náttúrulaus nálægt þeim. Ég hef á tilfinningunni að þegar hæst stendur fari þær að vitna í Baudelaire af því að þeim finnst svo ómenningarlegt að fá það alminlega.
Guðný: Hvernig líður þér þegar þú vaknar hjá svokallaðri jussu eftir nóttina?
Reynir: DAUÐUR. SKÍTUGUR. TÓMUR. Það tekur mig viku að jafna mig. Og þá er kominn tími til að fara aftur á Þórskaffi. “

Uppselt var á sýninguna og í lok hennar risu leikhúsgestir á fætur og klöppuðu leikendum lof í lófa. Ég hafði á tilfinningunni að í innilegu lófaklappinu væri einnig klappað fyrir höfundinum, Birgi Sigurðssyni, með þakklæti fyrir glæsilegt sígilt verk.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.