Nú heitir Pulsubarinn Fröken Reykjavík II

Eftir Albert Marquet lá leiðin í sal fjögur. Þar hófst ein veislan til viðbótar. Það er undravert hvað salur í listasafni getur verkað sterkt á mann. Þegar vel tekst til. Í sal fjögur hefur tekist vel til. Andblærinn er öðruvísi. Ég rifjaði upp ástarstrauma sem ég upplifði um árið þegar við Ásta heimsóttum National Gallery í London. Það var í fyrstu ferð okkar til London, fyrir margt löngu.

Síðar lærði ég að orðin í setningu eftir Hemingway innihéldu dýrmætan sannleika en hann sagði að fólk ætti aldrei að ferðast nema ástfangið og með ástvini sínum. Í London vorum við hamingjusöm og ástfangin og dáðumst að fólksfjöldanum sem sat á tröppum og bekkjum og flötum beinum á stéttum og flestir voru ungir. Síðan gengum við inn í safnið. Vissum svo sem ekkert hvar við áttum að hefja ferðina. Álpuðumst til vinstri. Það var löng ferð. Vakti litla gleði.

Tók þessa mynd í Austurstræti í morgun undir expression áhrifum. Smellið á hana.

Síðar, orðin þreytt á röltinu, ákváðum við að fara út. Í ganginum, á útleið, skammt innan við útgöngudyrnar varð mér litið til vinstri og sá þar inn í sal þar sem þeir blöstu við, elsku vinirnir, impressjónistarnir. Samstundis var eins og við værum hrifin upp í sjöunda himinn, eins og Dante orðaði það. Öll þreyta hvarf á augabragði og við upplifðum þessa miklu hamingju og töfra næstu klukkustundirnar. Það er ólýsanlegt. Ógleymanlegt.

Ekki var tilfinningin svo sterk við inngönguna í sal fjögur í Listasafni Íslands. En hún minnti mig samt á hamingjustundina í London. Félagsskapnum var heldur ekki saman að líkja. Nú var Ásta ekki með, bara vikusálin B og ég hef aldrei verið ástfanginn af henni. Honum. Hvað á ég að segja. Líklega honum. En hann má eiga það að hann þagnaði þegar í salinn kom.

Áhrifin þarna minntu á áhrifin sem þeir kölluðu fram, ævivinir okkar, Turner, van Gogh, Degas, Mane, Seurat, Pisarro, Delacroix, El Greco og stóri dvergurinn Lautrec, svo ég nefni þá sem allir þekkja og við tókum ástfóstri við og ræktuðum samfélagið við með bókum. Bækur eru undursamleg tæki og hjálp og lífsbjörg. Hvernig væri tilveran ef þeirra nyti ekki við? Þegar ég kem í hús hjá fólki skima ég eftir bókum. Sjái ég ekki bækur verð ég dapur yfir fátækt húsráðenda. Það er til svo margskonar fátækt.

En aftur í sal fjögur. Vinstra megin eru Versalir í sólinni, Jean Gabriels, Bátur við strönd Martins Henri með deplum og doppum sem minna á Gogh og Pissarro, og Rauðu þökin með gliti sólar og ótal litadeplum sem breytast í hyllingar þegar farið er fjær. Það er svo glæsilegt. Þá er þarna Seglskip við Hornfleur eftir Vallothan, og svo konurnar: Nakin á vinnustofunni, Stúlka með Gítar, Nakin kona mót dagsbirtu, Ung spönsk kona, Sitjandi kona. Þar er líka Hljómleikar eftir Vallat.

Allt í einu fylltist rýmið af skvaldri. Hópur ungmenna kom í salinn ásamt leiðsögumanni, konu. Næðið var úti. Ég skimaði eftir B. Hann hafði ekki látið á sér kræla alllanga stund. Hafði staldrað lengur við sumar myndirnar en ég. Horfði lengi á Seglskipið Hornfleur. Ég fylgdist með honum. Stundum fór hann alveg ofan í myndina, bakkaði svo og horfði á hana álengdar, fór aftur ofan í hana. Hummaði. En friðurinn var úti.

Í salnum niðri er sýning á verkum Jóns Stefánssonar. Þar inni var annar hópur fólks með leiðsögumanni sem einnig var kona. Hópurinn var blandaður, ekki þó ungmenni, en fólk utan úr bæ. Leiðsögumaðurinn var hávær. Það er kannski nauðsynlegt til að allir heyri. Eldri maður næstum sköllóttur en með kínverskan topp eða fléttu á hnakkanum ræddi af krafti við hávaxna konu. Þau voru sammála um eitthvað og glöð yfir færni sinni og skunduðu greitt. Við B ákváðum að fresta Jóni Stefánssyni.

– Það er margt um manninn, sagði ég þegar við komum niður á Fríkirkjuveg.
– Það má nú segja, svaraði B.
– Mér finnst óþægilegt að einbeita mér í hávaða og skvaldri.
– Ertu ekki bara orðinn gamall og fúll, spurði B?
– Það getur vel verið, sagði ég, man samt aldrei eftir svona hávaða á söfnum erlendis.
– Þú ert bara búinn að gleyma því.
– Það getur vel verið. Mér finnst að fólk gangi þar um með meiri lotningu, sagði ég.
– Lotningu?
– Já, lotningu og virðingu, svaraði ég.
– Það bergmálar ansi mikið hér, finnst þér það ekki? spurði B.
– Arkitekta mistök, sagði ég.
– Það er líklegt.
– Það á að hanna söfn hljóðlát.
– Kannski lagfæra þeir þetta. Það er nóg til af efnum sem draga úr glym.

Við sóttum nú bílinn og ókum norður Lækjargötu, þá Kirkjustræti, Aðalstræti og austur Hafnarstræti. B var annars hugar og reyndi ekki að segja mér til. Óvænt fengum við stæði á mæli við Optik gleraugnaverslun. Áttum erindi í Bókaverslun Eymundssonar í Austurstræti. Þar höfðum við ekki komið í áravís. Og má eiginlega segja að við þekktum ekki búðina. Nú er hún á fjórum hæðum og kjallara. Breiðir stigar milli hæðanna klæddir elskulegum viði. Á þriðju komma fimm hæðinni er kaffistofa.

Þar sátu þrjár ungar stúlkur. Ein hafði orðið og hló við sjálfri sér. Hinar hlustuðu á.
Andrúmsloftið nokkuð líkt og áður. Hér voru stelpur við tískublaðahillurnar. Karl að fletta útlendri ferðabók. Kona muðlaði köku við glervegginn sem snýr út að Austurstrætia fjórðu hæð. Þar hefur verið komið fyrir borði við vegginn endilangan og einskonar barstólum til að setjast á. Karlmaður í vinnugalla sat þar og las í blaði.

Eftir að hafa fundið bók sem mætti þörfum okkar B og vorum á leiðinni út, – en nú var stúlkan sem hló við sjálfri sér orðin ein, en talaði samt á fullu, – sagði B:
– Það er allt breytt.
– Heldur betur, tók ég undir við hann.
– Það er eins og allt breytist, hélt hann áfram.
– Það er lögmálið.
– Í lífinu?
– Allt breytist, sagði ég.
– Maður verður gestur í sinni eigin borg.
– Já, það er rétta orðið. Allt sem maður taldi umgjörð sína og heimsmynd er fjarlægt og ný umgjörð og heimsmynd sett í staðinn.
– Er það ekki dapurlegt? spurði B.
– Nei, nei. Bráðum verðum við sjálfir fjarlægðir og nýir koma í staðinn.
– Nýir?
– Já.
– Menn?
– Fólk. Kynslóð. Fólk sem ekkert veit hvernig var þegar okkar blómi var í blóma.
– Og er sennilega alveg sama, bætti B við.

– Tókstu eftir skiltinu á BSR afgreiðslunni? spurði ég.
– BSR afgreiðslunni?
– Já. Tókstu ekki eftir henni?
– Nei. Hvar er hún.
– Hún er ekki. Hún var.
– Hvar?
– Þarna, sagði ég og benti.
– Þarna hvar?
– Þetta var alltaf lítil skonsa. Fyrst afgreiðsla BSR. Síðan Pulsubarinn. Svo liðu mörg ár. Nú heitir hún Fröken Reykjavík

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.