Tuttugu grömm með vængi

Því lauk í gær. Tíu daga fríi Ástu og dvöl okkar í litla kofanum uppi í Borgarfirði. Vestra. Hann er okkar svæði. Og norðanáttin sá okkur fyrir skjóli á pallinum. „Ég vil hafa rok,“ er haft eftir bónda einum í Hvítársíðu á miðri síðustu öld, þegar ferðamaður spurði hann með vandlætingu hvort það væri alltaf þetta andstyggðar norðanbál í Króknum. „Ég vil hafa rok.“

Við höfðum góðar bækur með að vanda og hurfum inn í þær á milli. Hlustuðum á fréttir og upplifðum að maður hlustar betur úti í mörkinni. „Veislunni er lokið,“ sagði hagfræðingurinn ábúðarmikill. Bætti við að kannski væri það óþarflega dramatískt orðalag. En við vissum þetta smælingjarnir fyrir alllöngu. Það var í raun aldrei nein veisla. Bara fyllerí. Og vísubotn Hannesar Hafstein kom oft í hugann: „Drekkum í dag, iðrumst á morgun.“

Það ganga of mörg skrímsli laus í landinu. Undanfarin ár hefur verið unnið að því markvisst að hlaða undir þau, gefa þeim lausan tauminn og hvetja þau. Því miður. Ástæðan var sögð sú að það væri nauðsynlegt fyrir þjóðarhag. Hvaða þjóðar? Nú eru skrímslin svo stór að ekki fæst við þau ráðið. Kolkrabbar og SÍS verða eins og kjöltukisur í samanburði. Það þarf hvorki heimspekinga né aðra fræðimenn til að sjá að það hefur verið „vitlaust gefið“ eins og Steinn orðaði það. Og sorglegra en tárum taki hvað tunnuhljómur andstöðunnar er holur og innantómur.

Einn morguninn kom fyrsti skógarþröstur ársins á pallinn til okkar. Í fyrra kom hann 29. mars. Þann dag var sautján gráðu hiti á pallinum. Nú voru þær tvær. Þrösturinn var úfinn og þreytulegur. Og hljóðlaus. Við upplifðum gleði við komu hans. Fórum mörgum orðum um mófuglana og þessa ólíkindalegu árvissu baráttu þeirra við að koma til landsins okkar. Átta hundruð kílómetra og sum árin á móti sterkum norðanstreng.

Svo flugu þeir yfir, stelkar tveir og gaukar og tjaldapar. Sárafá eintök. Álftirnar hafa þó í hundraðavís lyft sér upp af ökrum bænda og flogið til fjalla árla dags, síðustu vikur, til að kanna ís á heiðavötnum. Gæsir og helsingjar í kjölfari þeirra. Komu vonsvikin til baka að áliðnum degi. Í flokkum og oddaflugi. Breiður af hvítum, stórum og tignarlegum fuglum.

Frændi Rameaus var í essinu sínu á þessum dögum. Fíflið. Hann lék allt sem hann sagði. Dansaði við raulið í sjálfum sér, þóttist spila á píanó þótt ekkert hljóðfæri væri, kastaði sér niður og stökk upp á milli þess sem hann laug að hefðarfrúm sem vildu að dætur þeirra lærðu á píanó hjá honum. Og sagði sögur af neðanmittis ævintýrum annarra hefðarfrúa. Frændi Rameaus, fíflið, sem hafði skarpari sýn á veruleikann en viðurkenndir heimspekingar samtíðar hans.

En söknuður okkar Ástu var mestur yfir ókomnum maríuerlum. Þessum litla kvika, fallega fugli, sem gladdi okkur svo innilega síðustu sumur með nærveru sinni og gleðibragði yfir á og allt um kring um litla kofann okkar og gerði sér hreiður undir þakskegginu. Hugur okkar leitar til hans og við sjáum hann í anda, þar sem hann berst árlegri hetjubaráttu við að koma og gleðja okkur. Í norðan tólf til átján metrum á sekúndu og fimm stiga frosti. Frjáls og óháður þó. Þetta smáa augnayndi. Tuttugu grömm með vængi.

2 svör við “Tuttugu grömm með vængi”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.