Stjórnarandstaðan

Hún talar eingöngu um hvað hinir geri allt á rangan veg. Hvað þeir hafi á fáu vit og farist öll verk illa úr hendi. Þessu hamrar hún á vikum og mánuðum saman rétt eins og hún viti allt betur og gæti gert allt betur. Af miklu afli hamast hún við það eitt að benda á hina og manni býður í grun að hún vilji forðast að vekja athygli á eigin markmiðum, sem eru að líkindum harla lítils virði. Nema þau séu þau sömu og hinna.

Og enn ákafar blæs hún í tálknin þessar vikurnar þegar kosningar til sveitarstjórna nálgast. Enn hækkar hvinurinn og enn berari eru málflytjendur að því að flytja ódýrar orðræður og slagorð. Stundum, þegar ekkert viðfangsefni er knýjandi, horfi ég á þingfundi í sjónvarpi. Þar heyrist oft skringilegt tal. Tal sem fær mann til að velta því fyrir sér til hverra hún ætli málflutningi sínum að höfða. Og verð alltaf jafn leiður. Já, svei mér þá. Ég segi það eins og það er. Leiður.

Einn daginn reyndi ég að vinsa úr orðaflauminum til að læra hvað í ósköpunum stjórnarandstaðan meinti með tali sínu. Varð litlu nær. Fannst þó helst eins og að kratinn Jóhanna Sig. og komminn Margrét Frímanns séu ærlegastar stjórnarandstöðufólks og standi klárar á því fyrir hvaða málefni þær sitja á alþingi. Það er nefnilega ekki fjöldi hjörla sem gefur orðum manna vægi.

Næstu vikur munu fréttamenn blaða og ljósvakamiðla keppast við og yfirfylla tilveruna með fregnum af frambjóðendum. Það eru leiðinlegustu tímar tilverunnar. Sama kjaftæðið endurvakið og heyrðist fyrir síðustu kosningar og kosningarnar þar á undan og þar á undan og þar á undan og þar á undan. Ósköp væri vingjarnlegt ef menn drægju dálítið niður í glamrinu yfir þessa daga sem í hönd fara.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.