Ég hafði eignast nákomna vini

„Þegar ég var sjö ára gaf frænka mín mér David Copperfield eftir Charles Dickens. Þegar ég hafði lesið nokkra stund var komið að mér hágrátandi uppi í stiga. Þá var David búinn að missa mömmu sína. Þetta var víst svokölluð innlifun. Ég hafði eignast nákomna vini við lestur þessarar bókar, þar á meðal David sjálfan, Betsy frænku hans og vinnukonuna Pegotty.“

Þessi orð eru höfð eftir Árna Bergmann bókmenntafræðingi í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Blaðinu síðastliðinn laugardag. Það er ánægjulegt að lesa viðtal Kolbrúnar við Árna, enda má segja að viðtöl hennar séu eitt bitastæðasta efnið sem Blaðið býður upp á. Gildir það einnig um Viðhorfspistla hennar í sama blaði.

„Best er vitanlega að vera í senn sautján ára og sjötugur,“ segir Árni þegar hann er spurður hvort hæfileikinn til að lifa sig inn í skáldskap hverfi með aldrinum eða sé alltaf til staðar. Við lestur greinarinnar, og sérílagi það sem hann segir um bækur og lestur, fékk mig til að staldra við og íhuga hvernig fyrir mér sjálfum væri komið í þessum málum. Vafalaust eiga fáir samskonar reynslu í þeim efnum.

Sjálfur hef ég upplifað það að mjög fáar skáldsögur ná til mín á seinni árum og eru þær teljandi á fingrum sem ég hef lesið til enda. Velti því stundum fyrir mér hvað valdi þessari breytingu, en í fyrra lífi las ég svo að segja allt með sama áhuga. Líklegast þykir mér að þessu valdi það að undir þrítugt sökkti ég mér í fræðibókalestur af mikilli ástríðu, aðallega guðfræðibókmennta og hóf leit að sannleika sem vænta mátti að þær þekktu veginn til.

Í samanburði við slíkar bókmenntir, og sérílagi þá sígildu texta sem lifað hafa af bæði tímans tönn og trylling og standa meitlaðir og óhagganlegir í alheimssálinni, verða margir aðrir textar eins og léttvægur golukliður í áttleysi. Eins er með þá vini sem dýru bókmenntirnar gróðursetja í hjartaborgum manna, þeir geta gert út um það hvort menn lifa af eða ekki þegar eldar brenna. En umfram allt, bækur eru miklir vinir og persónur þeirra geta verið nákomnar. Hvort sem maður er sautján eða sjötugur. Alltaf er þörf góðra vina.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.