Hálsbindin sjö

Aðalgöngugatan í Amsterdam heitir Kaalverstraat. Þúsundir manna fara um hana dag hvern. Ótal verslanir eru beggja vegna götunnar. Göngufólkið skoðar í búðargluggana. Flestir fara sér hægt. Þvergata ein sem liggur frá Kaalverstraat ber það ágæta nafn Heilagivegur. Í húsi númer sjö við Heilagaveg var lítil verslun sem sérhæfir sig í sölu hálsbinda. Á ferð eitt árið fyrir alllöngu, litum við Ásta inn í þessa verslun.

Inni í versluninni komumst við að því að hin bestu hálsbindi kosta aðeins helming af verði sambærilegra hálsbinda heima á Fróni. Umhugsunin um verðið og fjölbreytt úrval varð til þess að ég stansaði alllengi við í versluninni og skoðaði af nákvæmni. Efnin voru ósköp mjúk og þægileg og litasamsetningin svo fjölbreytt að allir ættu að geta fundið eitthvað fyrir sinn smekk.

Hálsbindasafn mitt hafði um áratugi samanstaðið af þrem eintökum. Tveim sem ég hef notað reglulega og einu sem ég gat aldrei fellt mig við. Og því freistaðist ég ógurlega. Ég fann hvernig löngunin varð til inni í mér. Hægt og sígandi gróf hún um sig og festi að lokum rætur. Síðan tók hún að vaxa og þar kom að hún náði tökum á vilja mínum. Í þrjá daga í röð fór ég inn í verslunina á Heilgavegi númer sjö og keypti tvö hálsbindi í senn. Þetta var feikileg nautn. Síðasta daginn keypti ég einnig litla sérhannaða grind sem hengd er á slá í fataskáp og hefir festingar fyrir tíu hálsbindi.

Gamla bindið sem ég hafði farið með í ferðina, og var orðið verulega trosnað undan hnýtingunum, sleit ég í sundur á hótelinu og henti í ruslakörfuna. Stoltur fór ég síðan heim til Íslands með nýtt bindi um hálsinn og fimm í tösku. Þegar heim kom gekk ég frá þessum nýju eigum mínum af kostgæfni. Hengdi ég grindina á slá í fataskápnum og átta bindi á grindina. Að sjálfsögðu lét ég þau gömlu aftan við þau nýju og horfði með velþóknun á þessi fallegu nýju bindi mín. Og brosti við.

Næsta sunnudag eftir heimkomu vorum við Ásta að búa okkur til samkomuferðar. Ég hugsaði til þess með tilhlökkun að nú mundi verða sérlega ánægjulegt að klæða sig upp. Í tæp fjörutíu ár hafði Ásta af velvilja sínum ætíð tekið til bindi handa mér um leið og hún lagði til skyrtu sem ég skyldi klæðast. Þannig hafði þetta alltaf verið og aðeins gott um það að segja.

En nú langaði mig að reyna á sjálfan mig. Fór því fram á það að fá að velja mér hálsbindi upp á eigin spýtur. Það var strax látið eftir. Gekk ég að fataskápnum, stoltur og fann fyrir þessu mikla persónufrelsi þegar nýju bindin blöstu við mér. Strauk ég þau og mat á milli fingurgómanna og kinkaði kolli drjúgur. Maður með mönnum. Kominn tími til. Kominn á þennan aldur.

Síðan valdi ég bindi og lagði mig fram við hnútinn. Tvöfaldan, jafnan og hæfilega stóran við skyrtukragana. Hið besta mál. Loks fór ég í jakka og var þá fullklæddur og gekk, ánægður með sjálfan mig, framhjá Ástu og gætti þess að hún sæi flottheitin. Eitthvað varð hún skringilega kankvís á svipinn þar sem hún hálfklædd flýtti sér á milli herbergja og sagði:
„Þú hefur þá valið gamla bindið, væni minn.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.