Þrír dagar í París V

Þriðja og síðasta daginn skoðuðum við Sigurbogann og gáfum okkur góðan tíma til að lulla þaðan og niður eftir Champs-Elysées. Við stönsuðum oft og skoðuðum staði, skoðuðum fólk sem sat á útikaffihúsum og spjallaði og slæptist. Ég álpaðist út á miðja breiðgötuna og stóð þar með myndavélina þegar umferðarófreskjan trylltist á grænu ljósi og loftstraumurinn var nærri búinn að feykja mér um koll.

Síðan skoðuðum við sælgætisbúð og hljómplötubúð og keyptum plötur með Mirellu Mathieu og tókum þátt í kæruleysi og slökun sem var á gangstéttunum og hliðargörðunum í öllu og öllum. Loks fórum við yfir Pl. Concorde og komum að Le Louvre garðinum og fundum suðurdyr. Fórum þar inn og tókum að skoða og skoða og skoða.

Fyrir skammt komna er heilmikið álag að ganga um söfn þar sem mörg þekkt listaverk blasa við á öllum veggjum. Listaverk sem þú hefur kannast við og heyrt um frá æsku, séð myndir af í blöðum og heyrt af í fréttum, samanber Monu Lisu eftir da Vinci, sem geymd er í sérsmíðuðum glerskáp síðan einn safngesta stakk hana á hol með regnhlíf. Og hafir þú í gegnum tíðina keypt þér stöku málverkabók eða þegið að gjöf frá kærum vini, þá hittir þú á Le Louvre myndir sem þú hefur skoðað aftur og aftur í einrúmi á andvökunóttum. Og þú þekkir þær og elskar sumar þeirra og þess vegna verða fundir ykkar svo áhrifamiklir.

Þarna er Dona Rita eftir Goya, Kristur krossfestur eftir Greco, Frelsið eftir Delacroix, Batseba eftir Rembrandt og Plankinn úr freigátunni Medusu eftir Gerigault, stærðarinnar mynd, 4,91 x 7,16 metrar að stærð. Þar segir frá átakanlegu sjóslysi þegar 149 farþegar af freigátunni komust á planka þegar skipið fórst og rak fyrir endilangri strönd Afríku í júlí árið 1816 og aðeins tíu komust af.

Við urðum þreytt á göngunni um salina og skildum að við myndum aldrei komast yfir að skoða nema lítinn hluta í einni heimsókn. Vorum því í þann veginn að hætta og fara út þegar við okkur blasti mynd af Guðspjallamönnunum fjórum eftir Jordaens. Við áttum mynd af málverki þessu í bók heima og höfðum oft talað um að gaman væri að heimsækja það og nú blasti það við okkur, frummyndin sjálf.

Pétur og haninn. Ásta vakti athygli mína á stóru málverki sem hékk við hlið lærisveinanna. Það var af Pétri postula, öldruðum. Allir þekkja Pétur postula og er hann væntanlega frægastur fyrir hanann, þann sem gól eftir forspá við þriðju afneitun Péturs á sambandi sínu við Jesúm frá Nasaret. Rifjum upp hina átakanlegu atburði. Litli hópurinn er á leið til Getsemanegarðsins, Jesús og lærisveinar hans. Átakatími er framundan.

Jesús er á leið til hinna mestu átaka, angistarfullrar bænastundar fyrir krossfestinguna. Hann segir við lærisveina sína: „Þér munuð allir hneykslast á mér á þessari nóttu; […] en Pétur svaraði og sagði við hann; „Þótt allir hneykslist á þér, skal ég þó aldrei hneykslast.“ Jesús segir við hann; „sannlega segi ég þér, á þessari nóttu, áður en haninn galar, muntu þrisvar afneita mér.“ Pétur segir við hann: „Og þótt ég ætti að deyja með þér, mun ég alls eigi afneita þér.“ Á líkan hátt mæltu og allir lærisveinarnir.““

Eftir Júdasarbragðið, þegar hermenn höfðu tekið Jesúm fastan og leitt hann fyrir ráðið, æðsta prestinn og fræðimennina og öldungana, sem allir hötuðu hann af óskiptu hjarta og notuðu nú tækifærið til þess að svala hatri sínu með því að hrækja í andlit honum, slá hann með hnefum og berja hann með stöfum, segir í Heilagri ritningu:

En Pétur sat fyrir utan í hallargarðinum. Og þerna ein kom til hans og mælti: Þú varst einnig með Jesú frá Galíleu. En hann neitaði því í áheyrn allra og sagði: Ég veit ekki hvað þú átt við. En er hann var kominn út í fordyrið, sá önnur þerna hann og sagði við þá er þar voru: Þessi maður var líka með Jesú frá Nasaret. Og aftur neitaði hann því með eiði. Ekki þekki ég manninn. En litlu síðar komu þeir að , er þar stóðu, og sögðu við Pétur; Víst ert þú líka einn af þeim; því að og málfæri þitt segir til þín. Þá tók hann að formæla sér og sverja : Ekki þekki ég manninn. Og jafnskjótt gól haninn. Og Pétur minntist þess sem Jesús hafði sagt: Áður en haninn galar, muntu þrisvar afneita mér. Og hann gekk út fyrir og grét beisklega.“

Myndina hér fyrir ofan tók Helgi Jósefsson, heitinn, af málverkinu á Louvre safninu og gaf okkur. Smellið á myndina.

Öll þessi orð, okkur Ástu svo kunn, fóru í gegnum huga okkar þar sem við sátum og horfðum á myndina. Hún er máluð í dökkum litum. Öldungurinn Pétur grár fyrir hærum. Ofan við hægri öxl hans er hani. Reigður stór hani, sem greinilega á að tákna að hann hafði tekið sér varanlega bólfestu í huga Péturs og hugsun og minnti hann stöðugt á kvöl og iðrun yfir daprasta degi lífs hans. Hani sem gól aftur og aftur, allt líf mannsins út í gegn.

Ásta sat alvörugefin. Hún var gripin af hugsuninni um Pétur. Einnig hugsun málarans sem tjáði á léreftinu það sem enginn hafði sett í orð áður, sársauka og sjálfsásökun yfir þrekleysi og niðurlægingu á mikilli örlagastund. Við gengum rólega út úr safninu og áleiðis að hótelinu. Hönd í hönd. Eftir alllanga göngu og jafnlanga þögn sagði Ásta: „Hugsaðu um það pabbi, haninn hefur fylgt honum og galað á hann alla ævina.“

Og með þeim orðum lýkur þessari upprifjun okkar um þrjá áhrifaríka daga í París. Daga sem allar götur síðan hafa verið okkur eins og höfðingleg veisla í farangrinum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.