Þetta var í gærmorgun. Við áttum stefnumót um hádegið. Hann hafði frestað því um viku vegna ferðalaga erlendis. Það lá því beinast við að spyrja hvert hann hefði farið.
„Til Bandaríkjanna,“ sagði hann, „Key West meðal annars.“
„Key West?“ sagði ég og rak upp stór augu og spurði hvort hann vissi eitthvað um Hemingway.
„Það er nú líkast til,“ sagði hann, „hef komið í safnið hans tvisvar.“
Þá fann ég lífsneista frá fyrra lífi blossa upp í huga mínum. Árunum með bókum Hemingways. Las fyrst bók eftir hann unglingur. Hverjum klukkan glymur, eins og hún hét í fyrstu útgáfu. Svo var nafni hennar breytt í Klukkan kallar til samræmis við kvikmyndina með Gary Cooper og Ingrid Bergmann. Og viðmælandi minn tók að segja mér frá safninu,
það væri ótrúlega áhrifaríkt, eins og karlinn hefði verið þar í gær, „og svo kettirnir,“ bætti hann við.
„Kettirnir. Hvað með kettina?“ spurði ég.
„Hann safnaði sérstöku kattarkyni. Þeir eru með fimm klær. Einskonar þumalputta í viðbót við þessa venjulegu. Þeir valsa þarna um, tuttugu til þrjátíu stykki.“
„Hann varð geggjaður í lokin, blessaður maðurinn,“ sagði ég.
„Já, fjölskyldusaga hans er átakanleg. Sorgarsaga um mikið þunglyndi.“
„Já, víst er um það. Víst er um það. Hann gerði svo eins og pabbi hans gerði. Skaut sig,“ bætti ég við.
Mynd: Sjúkur Hemingway á göngu við heimili sitt í Ketchum, Idaho, síðasta veturinn sem hann lifði. Smellið á myndina.
„Það var ekki þarna, það var uppi í Idaho,“ bætti viðmælandi minn við.
„Auðvitað. Ketchum Idaho. Svo halda sumir því fram að Mary hafi gert það,“ sagði ég.
„Nei, það passar ekki. Það passar engan veginn,“ svaraði hann.
„Hann var nú samt mikill rithöfundur og hetja,“ sagði ég og vildi leiða samtalið frá sorgarmálunum, „og bækurnar hans stórkostlegar.“
„Já, vissulega,“ bætti viðmælandi minn við og svo sátum við þarna þöglir litla stund og hugsuðum inn í okkur og minntumst bókanna eftir og um Ernest Miller Hemingway. Einskonar bros á vörum beggja.
Og til raunveruleikans aftur.
„Hundrað og fjörutíu yfir níutíu,“ sagði hann, „það getur ekkert verið betra. Þetta lítur vel út hjá þér. Sjáumst við ekki eftir þrjá mánuði?“
„Jú, um það bil.“ Við kvöddumst. Þegar heim kom strauk ég hendi yfir bækurnar mínar eftir og um rithöfundinn Papa Hemingway, höfundinn sem ég dáði í fyrra lífi og allar götur síðan þótt gagnmerk fræðirit um glímu mannsandans hafi um árabil blandað sér í viðfangsefni sálar og anda.
Rifjaði upp gönguferð okkar Ástu í París fyrir tuttugu árum um slóðir bókarinnar Veislan í farangrinum. Og upplifðun mikla ánægju.
Finn fyrir hlýju og þakklæti fyrir veislurnar.