Fjórar stjörnur til RÚV

Fyrsta stjarna: Rás eitt á Ríkisútvarpinu var með ánægjulegra móti í morgun. Fram að níu fréttum var leikin tónlist eftir Isabellu Leonarda. Stórsöngvararnir Loredana Bacchetta og Luca Ferracio sungu með hljómsveit Dómkirkjunnar i Novara. Fögur tónlist og fagur söngur sem hreif mann að nýju til fegurðarinnar, eftir brímatilburði Silvíu Nóttar (Nætur??) kvöldið áður í sjónvarpinu sem skyggði á besta lag sirkussins, Þér við hlið, sem Regína Ósk flutti.

Önnur stjarna: Eftir níufréttir í morgun tók Ævar Kjartansson við með þátt sinn Lóðrétt og lárétt og var gestur hans dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson. Er þörf á nýrri trúfræði? var spurning Ævars til Sigurjóns. Það var gaman að fylgjast með Sigurjóni. Hann setti sig strax í stellingar fræðimanns sem býr yfir mikilli þekkingu en veit ekki alveg hvert spurningar þáttargerðarmannsins muni leiða. Með hógværri rödd og festu svaraði hann Ævari og var kofi hans aldrei tómur. Góður þáttur.

Þriðja stjarna: Eftir tíufréttir kom svo bókmenntafræðingurinn Árni Bergmann með þátt sem hann kallar Heinrich Heine – blíða og berserksgangur. Í upphafi lék Árni Lorelei og veitti þar með stemningunni út á ljósvakann. Magnús Ásgeirsson þýddi mörg ljóða Heines og meðal annarra „Inn í myrkur ævi minnar“, sem hljómar þannig í þýðingu Magnúsar:

„Inn í myrkur ævi minnar
eitt sinn brosti fögur sýn.
Hennar ljómi er löngu horfinn,
langa nóttin aldrei dvín.

Þegar börnin bíða í rökkri,
beygur fer um hjartað smátt.
Til að fæla frá sér ugginn
fara þau að syngja hátt.“

Líkt og börnin læt ég hljóma
ljóðin út í húmsins tóm.
Hvað sem líður list og skemmtun,
leystu þau mig úr óttans klóm.“

Það var ánægjulegt að hlusta á erindi Árna Bergmanns og rifja upp sögu Heinrichs Heines.

Fjórða stjarna: Útvarpsmessa í Hallgrímskirkju. Séra Sigurður Pálsson. Orð dagsins er frá lækninum Lúkasi. Jesús segir lærisveinum sínum dæmisögu um sáðmann sem fór út að sá og fjallar sagan um mismunandi jarðveg sem sáð er í. Í Matteusi þrettán er dæmisagan einnig skráð og lýkur henni þar sem segir m.a: „En það sem sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það.“

Lykilorð: Skilningur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.