Hávegir orðsins

Einu sinni enn fyllist hugur minn þakklæti til þeirra einstaklinga sem helguðu sig og helga sig þýðingastörfum. Vil taka svo sterkt til orða að segja að þeir séu með verðmætustu gjöfum Guðs til íslensku þjóðarinnar. Hvar ætli menning hennar væri á vegi stödd, nyti ekki þýðinga við. Það fara nöturlegar myndir í gegnum hugann við þá vangaveltu.

Bókmenntir veraldar, sögunnar og samræðna hvers tíma, veita aðgang að hugsun kynslóðanna og leit þeirra að niðurstöðum um eitthvað sem gæti nálgast það að vera kjarni tilveru? Þess vegna finnst mér að það eigi að hafa þýðendur í hávegum. Sú tilfinning vaknar ævinlega á jólaföstum því þá eru dagar bóka. Og þótt meiri hluti bóka gleymist fljótlega, sumar strax á næsta þorra og góu, þá eru alltaf nokkrar sem aldrei gleymast.

Ég hef upplifað það að með hækkuðum aldri mínum finna færri bækur leiðina til mín í jólapökkum. Þess vegna fer ég gjarnan á stúfana og kaupi eina, tvær eða þrjár sem vekja áhuga minn. Því miður leyfir fjárhagur eldri borgara úr hópi verkamanna ekki að meira sé að gert í þeim efnum. Því verða slíkir að láta sér nægja að fara í bókaverslanir og horfa á bækur, handfjatla þær augnablik og leggja þær svo frá sér aftur.

Það kom fram um áramótin að stjórnvöld hafa ekki áhuga á þeim borgurum sem ekki taka þátt í framleiðslunni! Og það virðist ekki skipta þá neinu máli þótt um sé að ræða borgarana sem önnuðust alla framleiðsluna síðastliðna hálfa öld og sköpuðu arðinn sem stjórnvöld nú geipa af eins og eigin afrekum. Ljóð Steins Steinars, Þjóðin og ég, kemur upp í hugann, hvar fyrsta erindið hljóðar svo:

„Ég er einn á gangi og hugsanir mínar hljóðar
hverfa inn í rökkvaðan skóg þess, sem liðið er.
Mitt stolt er að vera sonur þessarar þjóðar.
En þjóðin er ekki líkt því eins stolt af mér.“

Mér er heitt í hamsi gagnvart stjórnmálum þessara tíma. Er verulega ósáttur. Geri samt mitt besta til að láta ekki innantóma og gagnslausa umræðuna eyðileggja fyrir mér dagana. Ég er nógu blankur samt. Hugga mig að mestu við þessar þrjár nýju bækur sem ég fjárfesti í fyrir jól. Eina eftir Mann, þá Gogol og loks Foucault. Bók Foucaults er aldeilis stórkostleg og fellur yndislega að einni af uppáhaldsbókum mínum, Útisetri, sem ég les í á hverju ári. Vor og haust. Enda fjallar hún um sturlun.

Þessum pistli var í upphafi ætlað að vera þakkaróður til þýðenda. Vona að hann nái því. Þá var hann einnig hugsaður sem hvatning til áhugafólks um bækur að það meti störf þýðenda mikils og hafi þá í hávegum. Það geri ég hérna úti í vegkantinum. Fullur aðdáunar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.