Skilmerkileg grein með þessu nafni birtist í Lesbók Morgunblaðsins síðastliðinn laugardag. Höfundur hennar er Jón Axel Harðarson dósent í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Greinin er full af góðum fróðleik og undir grundvallarskoðun mannsins, sem hann setur fram í niðurlagi greinarinnar, tek ég af heilum hug. Þar segir m.a.: „Þýðendum Biblíunnar ber að gæta hlutleysis. Þeirra verk er að túlka ritninguna eins rétt og kostur er, óháð ýmsum fordómum hverju sinni. Þýðingin verður að vera trú frumtexta sínum, …“
Þar sem ég er allsendis ómenntaður í guðfræði hef ég getað gengið um lendur ritninganna án þess að menntunarstórlæti hafi hindrað göngu mína að ráði. Hef jafnframt hugsað sem svo að ritningin hafi einnig verið rituð fyrir menn á borð við mig, sælan í fátækt andans. Stundum hef ég þó rekið mig á ýmiskonar óvissuþætti í þýðingum á íslensku, orð hafa komið og orð hafa farið, og því aflað mér Biblía á þeim tungumálum sem ég ræð við að lesa.
Á eigin spýtum hef ég síðan reynt að mynda mér skoðanir á því hvað ritningin vildi segja mér með orðum sínum. Niðurstöðurnar hafa alltaf leitt til þess að óendanleg elska Guðs sé kjarninn og öxullinn, og Jesús frá Nasaret birtingarmynd hans. Því þurfi ég ætíð að gæta þess að „hann á að vaxa, en ég að minnka.“
Það er ekki óskakostur að vera bundinn í flokki með þeim sem berja sér á brjóst og gera sér svipu úr orðum ritninganna til að berja á „bandingjum, blindum og þjáðum,“ en smjaðra fyrir víxlurum. Og sama gildir um konur sem ekki vilja vera menn. Maður kýs fremur að velja sér opnar gresjur þar sem maður getur sjálfur fundið sér hvíldarstað til að bæla um hádegið.
Biblían vitjaði mín fyrir liðlega fjörutíu árum. Hún gerði sér aðsetur í huga mínum. Svo er Guði fyrir að þakka. Það sannar og hina fornu speki um vatnið sem: „Án baráttu sest það þar að sem auvirðilegast þykir.“ Hinn mannelskandi andi hennar, fordómalaus, leitaði mig uppi á göngu um dimmustu dalina, með smyrsl í buðk. Og hann spurði mig: „Þyrstir þig.“ Og ég svaraði: „Já, mig þyrstir, en ég veit ekki hvar svalinn er. “ Og hann sagði: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“
Að lokum: Þýðingin verður að vera trú frumtexta sínum. Fólk verður að hafa aðgang að orðum og hugsun frumtextans eins og kostur er. Og geta treyst á hann. Hana á ekki að sveigja eftir breytilegum vindáttum tíðarandans. Hversu hátt sem gnauðar.