Hvað er hjólið gamalt?

Fréttin birtist í Mogganum í morgun. Manneskjan sem setti hana fram var sigri hrósandi. Niðurstaða var fengin. Eftir rannsóknir og mælingar á nýjan kvarða hefur verið sannað að hjól snýst. Til sögunnar eru nefndir landskunnir vísindamenn og geðlæknar. Þeir hafa kannað nýtingu fólks á hjólinu og komist að þeirri niðurstöðu að það snýst hjá þeim sem líta á það sem hagnýtt fyrirbrigði. Að sjálfsögðu hafa þeir ekki prófað hjólið sjálfir.

Mér þykja fréttir eins og þessar vera um það bil hið fullkomna dæmi um yfirlæti og hroka. Hroka sem einkennir fólk sem hefur notið háskólamenntunar og orðið svo hrifið af sjálfu sér að það hefur stillt sér upp í halarófu þeirra þröngsýnu fræðimanna og spekinga sem gerðu lítið úr reynslu kynslóðanna, af því að hvorki tókst að mæla hana né vigta. Og þannig hafa þeir komið fram eins og þröngsýnustu trúarofstækismenn, sem hafna öllu sem ekki fellur að þeirra viðhorfum.

Fréttin er um áhrifamátt bænarinnar. Hún segir frá uppgötvun sem legið hefur ljós fyrir frá árdögum mannkyns. Uppgötvun sem hefur sefað sorgir, vakið kjark og hvatningu manna, karla, kvenna og barna í árþúsundir. Hundruð milljóna dæmi eru um hin miklu áhrif bænarinnar. Öld eftir öld eftir öld. Ég fæ ekki séð að þessi mæling sé neitt til að hrópa húrra yfir. Er hún ekki miklu fremur sönnun þess hvað vísindin eru þröngsýn, þrátt fyrir eigin yfirlýsingar um annað?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.