Styrjaldarlok 1945

Öll skipin sem voru í höfninni þeyttu þokulúðrana. Bílar flautuðu. Fánar voru dregnir að hún. Fólk hrópaði og segja má að hver einasti maður hafi brosað út að eyrum. Við pollarnir fórum niður að höfn. Mannfjöldi eigraði fram og aftur. Síðdegis og um kvöldið varð svo allt brjálað. Áflog og slagsmál milli hermanna og Íslendinga. Lögreglan beitti kylfum við að skakka leikinn. Fékk ekki rönd við reist. Beitti loks táragasi. Óeirðirnar héldu áfram daginn eftir.

Minnstu strákarnir af Grímsstaðaholtinu flúðu heim þegar lætin jukust. Ég var einn af þeim. Átta ára gamall. Kjarklítill. Þeir stærri urðu eftir niður í bæ eitthvað lengur. Hvort hernámsárin höfðu varanleg áhrif á okkur? Átta mig ekki á því. Sumt var skemmtilegt. Ameríkanarnir voru góðir við okkur strákana. Bretarnir varasamari. Sumir. Það hefur vafalaust haft einhver áhrif þótt við getum ekki skilgreint það. Höfum það í þagnargildi.

Stundum eyddum við löngum tímum með könunum. Fengum reynslu á flugvellinum. Þeir leyfðu okkur stundum að standa á vængjunum upp við flugklefann þegar þeir „töxuðu“ í rólegheitum. Við þóttumst þekkja flestar flugvélar og dáðum Spitfire. Einnig fengum við að sitja í, bæði í jeppum og beltabílum. Mjög minnisstæð er matarlyktin í mötuneytunum. Slefuðum í bókstaflegum skilningi. Þarna flæddu um vit manns lyktir af baconi, skinku, rauðum baunum og allskyns lostæti sem við höfðum aldrei kynnst. Stundum fengum við að borða með þeim. Það er ógleymanlegt.

Þar sem pabbi hafði skósmíðaverkstæði í kjallaranum á Bjargi, komu hermenn gjarnan með skó til viðgerðar. Eitt skiptið var engin heima nema Tobba, Þorbjörg, ömmusystir mín, sem bjó hjá okkur. Hún var á níræðisaldri. Þegar foreldrar mínir komu heim kom í ljós að Tobba hafði tekið við skópari af hermanni, til viðgerðar. Hún fór að segja frá því hvað auðvelt hefði verið að skilja hann. „Hann sagðist vera að fara á sjó,“ sagði gamla konan. Við eftirgrennslan kom í ljós að maðurinn hafði sagt „show.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.