Dínamít er sprengiefni

Við fórum í leikhús í gær. Við Ásta. Sáum leikritið Dínamít eftir Birgi Sigurðsson. Þetta er átakamikið og kröftugt leikverk. Mikil orðræða og framúrskarandi leikur. Við hrifumst af verkinu. Bæði. Það fer samt þannig fyrir mér í leikhúsi að það er textinn, hugsunin og tjáningin sem hrífur mig helst. Umgjörðin hefur minna gildi. Sennilega af því að ég hef ekki vit á henni.

Þó sýndist mér þarna vera skilningstré, það sem prófarkalesarinn steig út úr. Einnig sá ég krossinn, að ég tali ekki um atriðið þegar Elísabet arkar í gæsagangi yfir handrit bróður síns. Leikmynd, búningar og litir taka ekki of mikið frá textanum, kynda fremur undir honum. Leikritið fjallar um tvo Nietzsche. Í fyrsta lagi heimspekinginn sjálfan og hugsun hans og í öðru lagi þann sem systir hans skapaði úr verkum hans. Þeir eru mjög ólíkir, mjög ólíkir, en báðir geðveikir. Sturlaðir.

Þekking mín á Nietzsche er mögur. Því miður. Þó hef ég haft hann um hönd í mörg ár. Fyrst þegar ég tók að huga að honum var ég innan um fólk sem vissi ekki að til hefði verið maður sem hét Nietzsche. Næst heyrði ég af guðfræðinema sem varð svo hræddur við djöfulinn, eftir að hafa hlýtt á fyrirlestur um kenningar heimspekingsins í Háskólanum, að hann hljóp tíu sinnum réttsælis og tíu sinnum rangsælis í kringum skólann og fór með Faðirvorið.

Svo var það allmörgum árum seinna, í samkomu í Samhjálp, að ég vitnaði í Nietzsche í ræðu minni. Í samkomulok gaf sig fram við mig fullorðinn maður, kunnur menntamaður í Reykjavík, og sagðist vera sérlegur aðdáandi heimspekingsins. Í framhaldi af því sótti hann samkomur hjá Samhjálp í nokkur ár. Hef hann grunaðan um að hafa dáð þann Nietzsche sem systirin Elísabet skapaði. Ekki hinn raunverulega sem sagði:

„Ég segi við lífið: Helgist þitt nafn.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.