Ýmsir komast þannig að orði um lífsferil sinn að þeir megi muna tímanna tvenna. Er ljóðið um Hrærek konung á Kálfskinni, eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, stórkostlegur kveðskapur um örlög tvenn. Þar kemur eftirfarandi ljóðlína fyrir aftur og aftur: „Man ég, man ég tíma tvenna. / Tár úr blindum augum renna.“ Ljóðið er harmaljóð og hrífur lesandann með sér inn í grimm örlög söguhetjunnar.
Þessi hugsun leitaði til mín síðastliðið laugardagskvöld. Við vorum í afmælisfagnaði dr. Kristins Ólasonar. Afmælisdagur hans var raunar í gær, annan maí. En vegna anna á afmælisdeginum, buðu þau, hann og Harpa kona hans, til veislu s.l. laugardagskvöld. Um áttatíu manns mættu í veisluna. Fjölskyldur beggja hjónanna og fjöldinn allur af doktorum, guðfræðingum og prestum. Og aðrir vinir. Var veislan öll hin glæsilegasta eins og veislur höfðingja gjarnan eru.
Áhrifamesta atriðið fyrir mig, í veislu þessari, var að hitta dóttur mína, Stefaníu Hrönn. Hún fæddist tæpum þrem árum fyrir hjónaband okkar Ástu. Stefanía Hrönn var ættleidd og er skráð Guðmundsdóttir. Það var mjög yndislegt að hitta hana, fá að faðma hana, sitja hjá henni og ræða við hana og eiginmann hennar. Við höfðum aðeins hist einu sinni áður. Síðan eru meira en þrjátíu ár. Svona endurfundir eru samt ekki einfalt mál. Þeir reyna verulega á tilfinningakerfið og ekki séð að manni takist að vera sá sem maður vill á slíkum fundi.
En konan, Stefanía Hrönn, er yndisleg manneskja og frá henni stafar hlýju. Mér finnst lífið betra eftir að við höfum hist og er afskaplega þakklátur fyrir það. Það dregur úr sviða sjálfsásökunar sem aftur og aftur minnti á sig en stöðugt var reynt að kaffæra í djúpi sálarinnar. Slíkt verður mönnum á sem muna mega tímanna þrenna.
Í gegnum árin kom eitt af ljóðum Steins Steinars gjarnan upp í hugann þegar hugsað var til stúlkunnar Stefaníu Hrannar. Það vex eitt blóm fyrir vestan:
Það vex eitt blóm fyrir vestan,
og vornóttin mild og góð
kemur á ljósum klæðum
og kveður við vögguljóð.
Ég ann þessu eina blómi,
sem aldrei ég fékk að sjá.
Og þangað horfir minn hugur
í hljóðri og einmana þrá.
Og því geng ég fár og fölur
með framandi jörð við il.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
og veit ekki, að ég er til.
Veisla Kristins var því margræð og skilur eftir góðar og dýrmætar tilfinningar.
Flott hjá þér! Fallegt.