Fluguveiðar

Hún kom upp í huga minn, við fregnir af fyrsta veiðidegi í vötnum, veiðiferð ein sem við feðgarnir fórum í austur að Þingvallavatni, fyrir margt löngu. Pabbi minn og ég. Pabbi var mikill áhugamaður um stangveiði. Hann átti margar stangir af mismunandi gerðum, ótal veiðihjól og ógrynni af fluguboxum og spúnum. Og auðvitað töskur og tilheyrandi til að bera útgerðina í.

Hann veiddi gjarnan í Soginu og talaði um veiðistaðina af mikilli lotningu. Þá veiddi hann einnig niður við Selfoss, árin sem hann lagði hitaveituna þar. Einnig talaði hann um silungsvötnin um allt land eins og hann ætti þau öll. Ég komst aldrei alveg inn í þessi mál hans en bar mikla virðingu fyrir þeim. Tala nú ekki um þegar nýveiddur lax, eða sjóbirtingur eða silungur voru á borðum, og nýjar kartöflur, brætt smjör og veiðisögur.

Við fórum í þessa ferð á sunnudegi. Þetta var á árunum þegar vinnuvikan var fjörutíu og átta stundir og unnið til klukkan fjögur á laugardögum. Við fórum með strætó niður í miðbæ og gengum yfir á Bifreiðastöð Steindórs í Hafnastræti. Þaðan fór rúta austur að Þingvöllum. Síðan gengum við út að vatninu. Það var löng ganga fyrir lítinn strák. Pabbi gerði stangir og veiðihjól klár. Byrjaði með flugu, minnir mig. Hringir mynduðust um allt vatn þegar fiskurinn sótti sér flugu í yfirborðið.

Myndin hér að ofan er af pabba mínum árið 1930. Þá var hann 23 ára gamall.

Veðrið var gott. Logn og hiti. Talsvert af mýbiti. Ég kaus að láta mig dreyma í runnunum fremur en að taka þátt í veiðunum. Þegar hann kastaði línunni heyrðist hviss þegar hann sló stönginni aftur fyrir sig og annað hviss þegar hann sló henni fram. Stundum vildi hann koma flugunni lengra út og þá heyrðist hviss, hviss, hviss og hvisssss. Svo prófaði hann að skipta um stöng og setti kasthjól á hana. Þau voru svo flott í þá daga. Loks kastaði hann og spúnninn þaut langt út í vatnið og skvetti smávegis þegar hann lenti. Síðan tók hann að draga línuna inn og spúnninn glitraði í vatninu. Hann hafði veitt nokkra fiska um hádegið.

Loks kom að því að borða af nestinu. Það samanstóð af smurðu brauði að heiman og tveim maltflöskum. Ein handa hvorum. Ég hafði bara drukkið einn eða tvo sopa þegar tvær mýflugur voru komnar ofaní flöskuna mína. Það þótti mér ógeðfellt og reyndi að ná þeim úr með því að halla flöskunni og ætla þeim að renna út með maltinu. En það vildu þær ekki. Þær runnu ævinlega innar í flöskuna og ég sá fram á að ég fengi ekki meira malt.

En þá kom pabbi til sögunnar. Hann sagði að ég væri ósköp vitlaus og ég svo sem vissi það nú. Sjö ára barnið. Hann tók flöskuna og helti úr henni á djúpan pappadisk. Þá var auðvelt að veiða flugurnar ofanaf. Ég gaf honum samt maltið mitt. Mér líkaði ekki brákin af flugunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.