Horft í skóginn

Einhverju sinni kom ég í upptökuhljóðver í Hafnarfirði. Mætti heldur of fljótt, sem hefur verið siður minn í gegnum lífið og ótalmargir álasað mér fyrir, og settist á stól sem staðsettur var rétt innan við dyr eins upptökuherbergisins. Landskunnur hljómlistarmaður sat við flygil og lék á hann. Mér heyrðist hann leita að hljómum til að bæta við lagið sem hann spilaði. Þetta var falleg tónlist, dægurgerðar, og ég naut þess að hlusta.

Eftir alllanga hríð stóð maðurinn upp og mér varð á segja við hann: „Ég sé græn engi fyrir mér og heyri þyt í skógarlaufi.“ Listamaðurinn leit á mig með slíkri fyrirlitningu að það er mér ógleymanlegt. Og síðan strunsaði hann út. Ég sat þarna lengur og velti fyrir mér þessum tveim andstæðu áhrifum sem ég varð fyrir af nærveru mannsins. Fegurðina í hljómunum og myndina og litina sem þeir kölluðu fram, annarsvegar, og svipbrigði hans og fyrirlitningu sem lýstu algerri andúð á orðum mínum, hinsvegar.

Þetta atvik kemur stundum upp í huga minn. Minnir mig á vandann sem felst í samskiptum manna. Hvað það getur verið vandasamt að komast að niðurstöðu um hvað þeir vilja segja með orðum sínum og fasi. Einn góður vinur minn kom sér upp kerfi til að lenda ekki í of erfiðum pælingum um það hvernig bæri að skilja viðmælanda sinn. Hann einfaldlega svaraði með skrítlu og sendi þar með torskilda alvöru málefnisins út í bláinn. Líkt og þegar maður sleppir fugli sem maður heldur á.

Ekki minnkar höfuðverkur af skilningstilraunum þegar reynt er að komast að niðurstöðu með hjálp hinna mörgu og frægu heimspekinga. Hjá þeim eru niðurstöðurnar of margar og ganga gjarnan hver á aðra þvera. Maður er ekki fyrr búinn að lesa einn þegar næsti rífur niður allt sem þú varst farinn að vona að hægt væri að byggja á. Svo eru til menn sem halda því fram að maður sé það sem maður les, rétt eins og aðrir halda því fram að þeir séu af því að þeir hugsa. En hver er maður þá, eða hver verður maður, við lestur alls þess efnis og þeirra hugsana sem lesturinn leiðir til?

Ætli það sé ekki sæmilegt bráðabirgðasvar, á köldum maímorgni, að gott sé fyrir sálina að horfa í skóginn en það geti verið varasamt að fara of djúpt inn í hann vegna hættu á að villast.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.