Það var svo ágætur dagur í gær. Við fórum í göngutúr um Smáralind á leiðinni suður í Hafnarfjörð. Þar var ekki margt fólk á ferðinni. Helst í austurendanum á efri hæðinni þar sem þrír sýndu glennur úr Rómeó og Júlíu. Skrítið. Svo sýndu nokkur unglingapör dansa. Hægan vals og tangó og rokk. Sá þarna miðaldra konu, smá-vaxna. Hún ók innkaupakerru með sitt lítið af hverju í og horfði á atriðin lengi, lengi. Ég fékk á tilfinninguna að engin biði hennar heima.
Svo keyptum við fjórar rafhlöður í myndavélina hennar Ástu. Þau kostuðu 490 krónur. Af illkvittni fór ég inn í búð hinumegin við ganginn og spurði um verð á samskonar rafhlöðum og þar kostuðu þær 590 krónur. Kýrhaus. Ókum suður í Hafnarfjörð á sýninguna hennar Louisu Matt. Myndirnar hennar hafa töfra. Þar var margmenni og fjölgaði stöðugt á meðan við stóðum við.
Hitti þarna roskinn mann, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, og þakkaði honum fyrir grein eftir hann í Mogganum nýlega. „Hvaða grein var það?” spurði hann. „Þessi um milljarðamæringana,” sagði ég. „Já, hún. Ert þú kannski einn af þeim?” spurði maðurinn og skoðaði mig allan.” Þá varð ég svakalega orðlaus og tafsaði um hríð. En samtalið komst samt á skrið.
„Veistu það,” sagði hann, „ég komst til Bahama. Það er sælureitur á jörð. En fólkið, heimafólkið sem þar býr, er fátækt. Öll þessi mikla velta sem ferðamenn skilja eftir þar fer öll í menn sem alsekki eiga heima þar. Milljarðamæringar sem hafa sölsað undir sig öll fyrirtæki sjúga allan arðinn til sín. Og heimafólkið, eyjaskeggjarnir sjálfir, þeir fá ekkert af honum.
Og eins er þetta að verða hér. Hér á þessu auðuga Íslandi. Allt fjármagnið í höndunum á sjö fjölskyldum, eða hvað það nú er. Og þessir vinstri menn, grænir eða rauðir eða hvað það nú heitir allt, þeir segja ekki orð út í þetta. Þvaðra bara um léttvæg dægurmál. Það hlýtur að verða bylting fyrr en seinna.” Svona óð á okkur báðum alllanga stund og við vorum sammála.
„Það er bara spurning hvort stjórnmálamennirnir geti nokkuð breytt þessu. Hinir gráðugu fjármálamenn eru orðnir svo sterkir.” Að samtalinu loknu og samræðum um það hvort Samhjálp líktist Babtistum, „svona með að fara ofan í vatn?” „Það er þessi ytri hegðun. Margir treysta á hana. Spurningin er samt alltaf um hjartað og sannfæringuna.” „Já, auðvitað. Já. Auðvitað.”
Við Ásta gengum svo um sýninguna og sáum afar fallega mynd frá Lindargötunni. „Hvað ætli svona kosti?” spurði Ásta. Eftir nokkurt þóf komst ég yfir verðlista. Eina milljón. Við létum okkur nægja að fá kaffibolla í teríunni. Það er alltaf svolítil stemning í því. Og rjómatertan var svo ofboðslega freistandi. Fyrir utan skall á eitt élið enn. Þyrlaðist í hringi á milli húsanna og breyttist í slagveður.