Úti í mörkinni

Það voru auðvitað fleiri atriði, en þau sem segir af í síðasta pistli, sem gerðu sig heimakomin í huga manns, hvílandi úti í mörkinni í þessa tíu daga. Sum þeirra áhrifarík og önnur minna eins og gengur. En hugurinn, þetta óáþreifanlega fyrirbæri í manninum, hvort sem hann kallast blað eða eldur, tekur sér sjaldan hvíld frá endalausri iðjusemi sinni. Jafnvel þó aðrir hlutar fyrirbærisins þrái hvíldina stundum. Og hvað svo sem næturdraumar eru í eðli sínu, þá eiga þeir til að knýja svo ákaft að dreymandinn vaknar uppgefinn.

Guðsorðin sem ljósvakinn bar til okkar þessa daga voru ekki sótt á mikið dýpi. Má engu muna að manni þyki umbarnir una um of á grynningum. Má því og áætla að ávextir nái ekki þroska um fram græna stigið. En það er einmitt af ávöxtunum sem menn skulu þekkja spámenn sína. Jesús spurði lærisveinana: „En þér, hvern segið þér mig vera? Símon Pétur svaraði: „Þú ert Kristur, sonur hins lifandi Guðs.“ Sem á auðvitað að vera kjarni hverrar prédikunar.

Og áfram bárust krásir af síðum bóka. Saman hófum við „litla Gunnan og litli Jóninn“ helgidagana með lestri guðspjalla þeirra. Lásum til skiptis upphátt hvort með sína biblíu. Á föstudaginn langa drógum við fána í hálfa stöng og settum Stabat Mater eftir Bonancini og Crucifixus Antoniusar Caldaga á fóninn. Það er hrífandi tregi í tónunum sem falla svo yndislega að texta ítalska lögfræðingsins Jacopones hins ærða. Og þau hefja mann í einhverskonar sársaukafullum unaði. Og hugleiddum Maríurnar þrjár.

Svo komu þessir venjulegu dagar sem mynda andstæðurnar við þá heilögu. Við klipptum alsaskavíðirinn á norðurhlið lóðarinnar og settum stiklana í fötur með vatni til að gróðursetja þá þegar frost er farið úr jörð. Bárum olíur á útihúsgögn og ræddum áætlun um smá viðbót við pallanna. Fyrir tangósporin. Lærðum að Mogginn fæst ekki í Reykholti yfir bænadaga og páska og sýrði rjóminn í Húsafelli var bestur fyrir 10. október 2005.

En dagarnir voru dásamlegir og hjálpuðu skammt komnum að hugsa, spyrja sjálfan sig spurninga og leitast við að svara þeim með öðrum spurningum og forðast að komast að niðurstöðu. Trúa því samt, þrátt fyrir heimspekilegan efa, að sólin skín þótt hún sé á bak við skýin og Guð getur verið, í höfði Derrida, annað heiti á „algildi sjálfrar skynseminnar,“ án þess að það trufli aðdáun okkar á Kristi og öðru sköpunarverki Guðs.

Er nú og kominn tími til að ljúka þessum hugleiðingum síðustu daga með eftirfarandi orðum af bók: „Eitt er sannleikur almennt, annað sannleikur mannsins.“ Og óska þar með tryggum gestum heimasíðunnar gleðilegs sumars.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.