Allt er lífið glíma

Eins og fram er komið þá dvöldum við yfir helgina í sveitinni. Veðurblíðan sem tók á móti okkur síðdegis á föstudag var með fáum dæmum miðað við maímánuð. Svo einstök var hún. En um nóttina hvessti af norðaustri. Sú átt er þrálát þarna og oft stíf. En skjólið sunnanundir gerir lífið konunglegt.

Félagar mínir í lesmáli þessa helgi voru ekki af verri endanum. Vísindamaðurinn og hugsuðurinn Fást og guðfræðingurinn Wagner og ekki minni persónuleikar en Drottinn og djöfullinn, og allt það lið annað sem þarf til að skila góðu leikriti. Maður les í skömmtum og hvílir á milli. Dæsir.

Það má kannski segja að hin bókin sem veitti félagsskap hefði mátt vera svolítið gisnari. Hún fjallar um rithöfundinn Gustav Aschenbach og unga ljúflingspiltinn þokkafulla sem nafnið Adagio féll svo vel að. Ljúflingspiltinn með: „Höfuð Erosar, marmari frá eyjunni Paros með gylltri slikju, háir fagrir brúnabogar, gagnaugu og eyru mjúklega hulin af óstýrilátum lokkum að hætti riddarasveina.“

Þannig geta bækur veitt góðan félagsskap og fengið mann til að gleyma norðaustan strengnum og gnauði í þakskeggi. Og það er við hæfi að segja að félagsskapur sá sé lykill að góðri helgi í sveit þar sem vor og sumar glíma við að yfirbuga vetur konung. En á bókum má lesa um persónur sem glíma við lífið inni í sjálfum sér og utan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.