Sýndu mér hvernig

Sagan endurtekur sig. Nýliðar eru afkastamiklir við að gagnrýna. Þeir telja sig vita betur en allir sem ákvarðanir taka. Þannig hefur þetta verið öll árin sem ég hef hlustað á stjórnmálamenn og lesið greinar þeirra. Síðar, þegar og ef þeir komust þangað sem ábyrgar ákvarðanir voru teknar þá þögnuðu þeir skyndilega eins og lömb á haustdögum.

Og hversvegna þögnuðu þeir? Það var vegna þess að þegar þeir sáu hvað viðfangsefnin voru erfið og úrlausn þeirra flókin þá dugði ekki skrum og innantómar upphrópanir. En vitað er að skrum og innantómar upphrópanir eru yfirborðsmennska og hafa lítið gildi þegar til kastanna kemur, þótt hægt sé að afla atkvæða með þeim.

Mér er minnisstætt atvik frá þeim árum þegar ég var verkstjóri hjá öflugu vertakafyrirtæki. Á þeim árum var verið að byggja Suðurlandsveg upp. Þaulvanur vélamaður með margra ára reynslu vann á stórri vélskóflu. Nýlega hafði verið ráðinn yfirverkstjóri á svæðið. Hann tók sér fljótlega stöðu nærri vélskóflunni og gagnrýndi stjórnanda hennar, hvað hann gæti gert betur og öðruvísi.

Á þessu gekk í þrjá daga. Loks misbauð vélamanninum. Hann snaraðist út úr vél sinni og sagði við nýja yfirverkstjórann: „Sýndu mér hvernig.“ Þá brá svo við að nýi yfirverkstjórinn gekk þegjandi í burtu. Lét hann vélamanninn í friði eftir það. Og aldrei vann hann traust starfsmanna á svæðinu.

Þetta atvik rifjaðist upp þegar ég heyrði af frumgróða nokkurra þingmanna um málefni hálsbinda og ákvörðun um að sniðganga guðsþjónustu við þingsetningu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.