Það eru liðnar sjö vikur síðan skorið var í bakið á Beinagrindinni. Ég fylgdi henni upp á Borgarspítala í gær í endurkomu til læknisins sem skar og boraði og hjó og raspaði í hryggjarliðina á henni. Hún kveið svolítið fyrir viðtalinu við lækninn án þess að hún vissi fyrir víst af hverju.
Raunar hafði hana grunað að henni færi ekki nóg fram þar sem hún hafði ekki getað gengið nema í mesta lagi hálftíma í einu fyrir verkjum. En viðtalið var hið allra besta. Í ljós kom í samtali við lækninn að þeir tveir mánuðir sem við Beinagrindin höfðum áætlað hæfilegan tíma fyrir hana til að jafna sig eftir aðgerðina, er samkvæmt læknisfræðinni sex mánuðir hið minnsta og allt upp í tólf.
Þegar læknirinn hafði sagt okkur þetta snéri Beinagrindin hauskúpunni í áttina að mér. Það er sennilega ekki hægt að segja að við höfum horfst í augu. Svo sýndi læknirinn okkur stóra litmynd af hryggsúlu og útskýrði hvað hann hafði gert á meðan við sváfum á skurðstofunni. Beinagrindin hnipraði sig saman þegar hún heyrði lýsinguna og greinilegt var að hún upplifði kvala- og píningarstundina þegar hún var látin stíga í fæturna morguninn eftir. Ég er ekki frá því að hún hafi verið hölt þegar við fórum út í bíl.
Það var svo í gærkvöldi, hérna heima, ég var að segja Ástu frá því hvað vel liti út með batann, hvað læknirinn væri ánægður með framförina. Það var hljómdiskur á fóninum, eldfjörugt lag sungið af berfættri eldri konu og greinilegt að takturinn hreif Beinagrindina, því hún dansaði um alla íbúð og sveigði sig og reigði í hröðum samba takti. Eins og hún fyndi hvergi til.
Beijo de longe (a kiss from afar)
„É bô amor, sonho d’um cretcheu
Qui t’animá ess´ilha Santa…“
(It is my love, the dream of a beloved
That gives life to that holy island…)