Mikill jafnaðarmaður

„Hún var alþýðuflokksmaður alla tíð, ekki ákafamanneskja í pólitík, en mikill jafnaðarmaður.“ Þannig kemst sonur látinnar sómakonu að orði, í grein í Morgunblaðinu í dag. Þetta er falleg umsögn.

Mikill jafnaðarmaður. Við lestur þessara orða leitaði hugurinn til baka um hálfa öld. Þá var víða fólk sem stóð undir umsögn eins og þessari: Mikill jafnaðarmaður. En nú eru aðrir tímar. Nú er leit að slíkum. Mikið vildi ég að til væri fólk í dag sem hægt væri að segja um að væru „miklir jafnaðarmenn“.

Að sjálfsögðu er ég að tala um fólk í stjórnmálum. Því að þótt það sé til fjöldi fólks sem kennir sig fjálglega við jafnaðarmennsku á þessum misserum, þá er það allt annað en að „vera mikill jafnaðarmaður“. Það duga ekki orðin ein. Athöfn verður að fylgja.

Á síðutogurum í gamla daga gerðist það gjarnan að linir hásetar fóru aftur á keis með nálakörfuna og hnipruðu sig saman í skjóli í hitanum frá vélarúmi og strompi. Til að verjast ámæli um linkind og leti börðu sumir þeirra reglulega í strompinn með spanna svo að buldi í. Voru þess dæmi að skipstjórar töldu þá með duglegri mönnum um borð og mátu það eftir hávaðanum.

Erfiðir tímar eru nú að hefjast hjá þjóðinni. Fjármála- og þotulið skelfur af kvíða. Stjórnvöld segjast vilja liðsinna þeim. Verslunarmenn eygja aukna álagningu og verjast vel í kreppunni og fagna að hætti Fagins gamla. En hverjir eru málsvarar fátæka fólksins á slíkum tímum?

Hverjir eru málsvarar fólks eins og Þrúðu sem ekki átti fyrir mat síðustu viku hvers mánaðar. Hvar finnast nú „miklir jafnaðarmenn“, menn sem hafa bein í nefinu til að ganga í lið með þeim sem enga málsvara eiga? Hver stendur í dag undir nafninu „mikill jafnaðarmaður.“?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.