Hefðarfrúrnar í París og Öryggisráðið

Það var altalað að fyrir hundrað árum eða svo, hafi fínar frúr í París, og víðar, leigt ófríðar konur sér til fylgdar um götur borgarinnar þegar þær fóru í tískubúðir að versla og á önnur mannamót. Var hugmyndin sú að með því að hafa illa tilhafðar og óásjálegar manneskjur við hlið sér, yrði hlutur þeirra hefðarfrúnna betri við samanburðinn í augum samborgaranna.

Þessi mynd kemur oft upp í hugann þegar heyrist af stjórnmálamönnum og efnafólki. Og það er af því að ég hef á tilfinningunni að þeir efnuðu njóti ekki efna sinna til fulls nema í samanburðinum við þá fátæku. Stjórnmálamennirnir njóti valdsins aldrei eins innilega og þegar þeir bera sig saman við valdasnauðan almúgann.

Einhvern veginn hafði það hvarflað að mér, (ég veit að það er barnalegt) þegar Samfylkingin komst í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, að nú mundi koma nýr og sterkur tónn í básúnur þjóðarinnar. Tónn sem lengi hefur verið vænst og yrði til þess að uppörva fátæka fólkið og almúgann, með fyrirheiti um betri tíð í glímunni við daglegt basl. Nú myndu forvígismenn og fyrirliðar taka höndum saman og virkja krafta sína til að létta byrðum af þeim sem þyngstar hefðu.

En það sem við heyrum er allt annað. Forvígismenn og fyrirliðar þeysast um lönd til að létta kvíða af þeim efnuðu sem hafa spilað rassinn úr buxunum. Geir heimsótti Nasdaq og aðra peningaprinsa fyrir vestan haf, Ingibjörg bankamenn fyrir austan haf, á milli þess sem hún þeytist um víða veröld í atkvæðaleit fyrir setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hvaða gagn hefur Þrúða af því?

Og allt er þetta sagt gert með þjóðarhag í huga. En þá gæti maður líka spurt, hvaða þjóðar? Það er nefnilega svo oft eins og að þessi þjóðarhagur sé aðeins fyrir hluta þjóðarinnar. Þær séu í reynd tvær. Sú velmegandi og hin. Og maður gæti svo sem fílósóferað með það að hefðarfrúrnar í París yrðu að gæta þess vel að greiða fylgikonum sínum ekki of mikið fyrir fylgdina svo þær gætu verið vissar um að þær hættu ekki að þjóna þeim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.