Eldhúsraunir eldri borgara

Það eru ýmsar raunir sem maður lendir í eldhúsinu þegar glímt er við nýjar uppskriftir. Kvenbarnið átti afmæli um síðustu helgi og var þá í „haggis“- veislu með Edinborgarvinum sínum og Skotum. Það hafði verið afar vel heppnað. ( Haggis er skoskt slátur, gert úr hökkuðum (kinda eða kálfa) hjörtum, lungum og lifur og mör og haframjöli, samkvæmt hefð, soðið í vömb.

Hún kom svo til okkar í kvöld og áttum við glimrandi elskulega samverustund. Mér varð á, – eins og raunar oft áður- að prófa nýjan matseðil með nýjum réttum. Veit þá aldrei alveg hverju ég má búast við. En í kvöld var í forrétt svalandi sumarsúpa með sherry/soya kryddlegnu kjúklingakjöti og fennel. Skreytti hana með fjórðung úr eggi og örþunnum sneiðum af radísum. Átti með þessu ítalskt brauð sem ég bakaði fyrir skömmu og hitaði í örbylgjuofni.

Svo var það hinn endinn á nýsjálensku nautalundinni í aðalrétt með sinnepspiparsósu og sveppum og ýmiskonar grænmeti steiktu á pönnu og bakaðri kartöflu. Lundin brást mér. Kaupi hana ekki oftar nema í einhverskonar kássur eða súpur. En við borðuðum þetta allt með bestu lyst. Sósan gæti orðið fullkomin næst þegar ég geri hana. Þarf samt að eiga kvörn fyrir rósapipar og grænan pipar. Þeir komu fullgrófir úr mortélinu.

Ásta bjargaði svo kvöldinu með eftirréttinum. Það var einskonar pavlova. Klikkar aldrei og sterkt kaffi með. Svo var auðvitað talað og talað, einhver ósköp og rifjað upp og hlegið og smjattað. Ákaflega ánægjulegt kvöld í miðri viku. Allir saddir og sælir. En kokkurinn er ósáttur við lundina sem og bökunarkartöflurnar. Þær þurftu næstum tvo tíma í ofni við 200°C, og setti það allt úr skorðum.

Bækurnar segja einn tíma. Það er ekki alltaf svo gott að treysta á matreiðslubækur.

Eitt andsvar við „Eldhúsraunir eldri borgara“

  1. Það kom ekkert að sök þó kartöflurnar væru ekki gegnumsoðnar.

    Ég þakka gott kvöld og framúrskarandi matreiðslu að venju.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.