Þá hvítnaði ég í framan

Hann var búinn með klippinguna. Tók til við að snyrta hausinn á mér og umhverfið. Klippti af augnbrúnunum og renndi síðan rakhnífnum niður aftan á hálsinum á mér. Eins gott að reita hann ekki til reiði, hugsaði ég. Hann ræddi stjórnmál. Ég sagðist hafa kosið í gær og það væri ekkert hægt að hafa áhrif á mig. Svo fór hann að ræða muninn á Davíð og Geir.

Hann hefur aldrei dulið aðdáun sína á Davíð. Er mikill aðdáandi hans. Mér finnst næstum eins og Davíð sé einskonar pólitískur guð í augum hans. Það er enginn hundrað prósent, sagði ég og lýsti því yfir að í mínum augum væri Davíð frekur og ráðríkur og þyldi ekki fólk sem hefði aðrar skoðanir en hann. Þá hvítnaði rakarinn í framan og var enn með rakhnífinn á hálsinum á mér.

Ég reyndi að beina talinu að Geir. Hann er allt öðru vísi, sagði ég, ég kann vel við Geir. Það hefur samt enginn verið eins góður að höggva á hnúta eins og Davíð, taka afgerandi afstöðu í málum og stjórna af festu, sagði rakarinn og færði rakhnífinn framar á hálsinn á mér. Þá hvítnaði ég líka í framan.

3 svör við “Þá hvítnaði ég í framan”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.