Mas í morgunsárið

Morgunstund okkar hjónanna við Horngluggann er einskonar sælgæti dagsins. Fyrir sálina. Þá ræðum við vinnuna hennar og vinnuleysið mitt, sem og dægurmál og áform um veru í sveitinni. Upplifum við gjarnan á þessum morgunfundum okkar þægilegan blæ vinsemdar sem andar inn í fylgsni hugans. Í morgun settumst við með kaffið klukkan liðlega sex.

Við höfum haft þann hátt á að hafa útvarpið kveikt og stillum það lágt svo samræðurnar truflist ekki. Rás tvö annast um tónlistina fram að veðurfregnum. Í morgun var tónlistin hjá þeim svo gróf og hryllileg að það var veruleg líkn þegar þýð konurödd hóf lestur: „Veðrið klukkan sex….“

Að loknum sjöfréttum sveif ég niður í anddyri og sótti blöðin. Moggann, Fréttablaðið og Blaðið. Þar lá einnig bunki af DV sem er trúlega í átaki til að afla áskrifenda. Ég afskrifaði DV fyrir mörgum árum og tók ekki eintak. Við lestur Moggans og frásagnir af harmonikkuleikurum sem sendir eru úr landi, læddi Ásta því út úr sér að vissara væri fyrir mig að spila ekki utan dyra um þessar mundir, en eins og fram kom í pistli stendur yfir upprifjun á harmonikkuleik á heimilinu.

Bókin á borðinu mínu þessa dagana er Frá sál til sálar, um ævi og verk sálfræðingsins Guðmundar Finnbogasonar (HIB 2006) og endurles áhugaverðustu kaflana. Guðmundur þessi, fæddur 1873, var afar mætur maður, mikill fræðimaður og framfarasinni sem hafði afgerandi áhrif við gerð fræðslulaga á Íslandi. Það er skemmtileg frásaga tengd honum í inngangi bókarinnar:

„Í júní 1962 gekkst ungur Íslendingur undir munnlegt próf í sálfræði barna- og unglinga við Parísarskóla, Sorbonne, hjá hinum heimskunna sálfræðingi Jean Piaget. Piaget hefur prófið með því að spyrja nemandann, Andra Ískaksson, frá hvaða landi hann sé. Andri kveðst vera frá Íslandi. Veður þá stutt þögn en svo spyr Piaget: „Connaissez-vous Finnbogason – þekkið þér Finnbogason?“ Þessi spurning kom flatt upp á Andra þannig að Piaget bætti strax við: „Finnbogason, le psychologue – sálfræðinginn Finnbogason.““

Doktorsritgerð Guðmundar er um efni sem hann hafði nefnt samúðarskilning á íslensku en samúðargreind, L’intellegence sympathique, á frönsku. Í nútímakennsluháttum, svokölluðum einstaklingsmiðuðum aðferðum, er einmitt unnið í anda þessa skilnings Guðmundar, hundrað árum síðar. Guðmundur lauk meistaraprófi í heimspeki með sálfræði sem aðalgrein við Hafnarháskóla árið 1901.

Það var annars í framhaldi af ferð til rakarans í gær að rifjuðust upp fyrir mér viðbrögð ráðherra við fólki sem leyfir sér að hafa aðrar skoðanir en þeir. Í bókinni um Guðmund segir frá Hannesi Hafstein ráðherra og viðskiptum þeirra: „Guðmundur varð því líklega fyrstur íslenskra embættismanna þess sérkennilega heiðurs aðnjótandi að finna fyrir því hvaða afleiðingar það getur haft að hugsa og tala á þeim nótum sem eru ráðherrum ekki að skapi.“ Bls.230.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.