Fólk í sleik

Fór á skrifstofu sýslumanns í morgun og kaus. Það er talsverður léttir að vera búinn að því. Mér var boðið sæti. Tvennt beið þegar ég kom á staðinn. Ég settist á milli þeirra. Hægramegin við mig sat glæsileg ung kona, flott í tauinu og vextinum og allt, vinstramegin tiltölulega venjulegur karl. Þau þóttust vera á kafi í blöðum sem lágu frammi.

Eftir drykklanga stund kom sá út sem inni hafði verið. „Er þetta svona mikið verk?“ varð mér á að spyrja. Engar undirtektir. Þá reyndi ég að hlægja meðalhátt. Engin viðbrögð. Nú kom kosningastjórinn, kona, ljóshærð og pínulítið búttuð og áreiðanlega lögfræðingur, og bauð: „Næsti gjörðu svo vel.“ Sú flotta var næst. Það sást betur hvað hún var flott þegar hún stóð upp. Verst að hún var að fara. Það skall í hælunum á skónum þegar gekk út.

„Farðu bara inn strax,“ sagði ég við karlinn við hina hliðina á mér. „Er það óhætt?“ spurði hann. „Láttu reyna á það.“ Hann lét reyna á það. Þegar hann kom fram fór ég samstundis inn og settist og ljóshærða lagakonan fékk ökuskírteinið mitt og pikkaði eitthvað í tölvu, ýtti til mín miða og sagði „Þú þarft að útfylla þetta.“ Að því loknu fékk ég kjörseðil og umslag og fór inn í klefa og valdi mér stimpil (nú þarf ekki að setja kross lengur) og stimplaði. Rétt.

Ég settist aftur og lagði kjörseðilinn og umslagið á borðið. Konan skrifaði á miða og stakk honum í annað umslag og sleikti og ég sleikti mitt. „Við fengum þó bæði sleik,“ sagði ég, stakk umslögunum í rifu á stórum kassa og kvaddi. Þetta var góður morgun.

2 svör við “Fólk í sleik”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.