Fjölmiðlarnir fræða okkur um það, og nota um það orðalag eins og þeir eigi þátt í því, að bankarnir og önnur fjármálafyrirtæki hagnist meira í ár en á sama tíma í fyrra. Í fyrra högnuðust þeir meira en árið áður og það ár meira en árið þar áður og þar áður og þar áður. Við lestur þessara fregna af gróða verða til svo skrítnar spurningar í huga einfeldninga, svo eins og þessi: Af hverju þurfa þeir þá að hækka vexti á almenningi?
Sálin í mér lætur svona stundum. Spyr leiðinlegra spurninga. Þvert ofan í vilja minn. Hann, viljinn, vill helst taka lífinu með ró og reyna að lifa sáttur á naumt skömmtuðum ellilaunum. (Hræðilegt orð ellilaun). Og einn daginn tók sálin upp á því að reyna að mynda sér skoðun á því hve margir komi til með að sækja alheimshöllina miklu sem byggja á við höfnina. Fyrir hundrað milljarða? Svakalega held ég að það verði dýrt á hvern gest.
Vandi Heilbrigðisráðuneytisins til að byggja 380 rými yfir veika eldri borgara snýst aðeins um litla sex milljarða. En er látið hljóma eins og óyfirstíganlegur þjóðarvandi.
Eitt af þessum klikkuðu málum er svo þetta svokallaða hátæknisjúkrahús upp á 80 milljarða sem verða að minnsta kosti hundrað, með útúrdúrum, í höndum framkvæmdastjórans. Það er þegar farið að taka til sín fjármagn. Það sem vefst helst fyrir litlu sálinni í mér er, hvernig menn ætla að manna láglaunastörfin í nýju og stóru sjúkrahúsi þegar þeir ráða ekki neitt við þau sem þeir þegar hafa í umsjá sinni.
Fréttablaðið virðist hafa fundið aðferð sem manni sýnist nú raunar að margir fleiri hafi tileinkað sér síðustu misseri. En Fréttablaðið, nú undir nýjum forstjóra, já og ritstjóra, hafnar því að gera launasamning við blaðbera, varnarminnstu stétt landsins. sem veldur því að þeir hætta vegna lágra launa. Fréttablaðið flytur því inn ódýran vinnukraft og væntanlega réttindalausan, til að mæta þörfinni við blaðdreifinguna. Þetta stendur í Fréttablaðinu í morgun.
Svona lætur sálin í mér þótt ég sussi á hana. Sussi á hana hvað eftir annað. Svo maður bara spyr, eins og kerlingin um árið, sál, hvað er það eiginlega?
Það er líka spurning hvort hægt er að ætlast til þess að venjulegt fólk skilji alla þvæluna sem ráðamenn láta út úr sér. Ég tala ekki um ef þvælan er matreidd með það fyrir augum að hún verði ekki skilin. Ekki einu sinni af þeim sjálfum.