Þegar rætt var um listmálara eða teiknara, þá heyrðist gjarnan orðið skissa eða skitsa. Það var notað yfir uppkast eða frumdrög að verki sem greip listamennina. Sumir áttu skitsubækur sem þeir rissuðu hugmyndir sínar í og áætluðu að vinna betur úr síðar. Orðið frumdrög rúmar vel þessa hugmynd, uppkast, tilraun til að móta hughrif augnabliks. Festa þau á blað. Hughrif á blað. Mig langar svo að upplifa það.
Þannig var (skitsa)
Hann bar við himin
efst í brekku
ég sá hann þar
og heyrði hróp hans
efst úr brekku
sem vindur bar
og sáran hljóminn
orð sem nísti
orð sem skar
svo misst’hann tökin
efst í brekku
og hrapar þar
—
Ég árum síðar
orð hans greindi
orð sem var:
Vill einhver nefna
efst í brekku
nafn mitt þar
og gráta með mér
gráta með mér.
Þannig var