Geirinn og bókmenntirnar

Einhvern tímann á miðri síðustu öld, þegar Listamannaskálinn, staðsettur við stíginn á milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis, var og hét, var Kjarval spurður að því hvort hann sækti sýningar ungu listmálaranna. Tilefnið var mikil sýning ungra listamanna í skálanum. Kjarval svaraði því til að það gerði hann aðeins ef hann fyrirfram hefði áhuga á þeim. Sem væri sárasjaldan.

Þessi orð Kjarvals komu í hugann við lestur greina um bækur síðasta árs, í Tímariti máls og menningar 1. hefti 2006. Það er með nokkru hiki sem ég les greinar þess ofurkunnáttufólks um bókmenntir sem ljá tímaritinu afurðir sínar. Fæ á tilfinninguna að það sé meira og minna að skrifa hvert öðru. Leggi sig fram um að hljóma vel í eyrum jafningja og þess hóps sem það vill tilheyra og talar og hreyfist meira og minna eins og það eigi „bókmenntageirann“.

Þegar venjulegt fólk, „sauðsvartur almúginn“, finnur hjá sér hvöt til að skoða viðhorf hinna vísu, til bóka og höfunda þeirra, er ekki örgrannt um að nokkur tortryggni vakni út í skrif þeirra og greiningar. Það hlýtur nefnilega að vera allnokkur vandi að skrifa um efni á þann hátt að vegur skrifarans aukist innan hópsins sem hann vill hljóta viðurkenningu hjá. Sem skiljanlegt er. En þá getur skapast hætta á að um línudans verði að ræða.

En með þetta í huga er samt alltaf fróðlegt að lesa Tímarit máls og menningar. Var og áskrifandi þess um árabil áður fyrr. Hef ekki efni á því lengur. Fremur en ýmsum tímaritum öðrum. Því miður. Enda löggiltur í hópi eldri borgara. En á þessum árum, aldurs og reynslu, er það svo að sú bók þykir mér standa upp úr, þar sem höfundurinn er ekki að flækjast fyrir mér, og við lesturinn fær mig til að gleyma að ég er að lesa. Sem er fremurr sjaldgæft um þessar mundir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.