Margt býr í þoku dagsins

Það fer ekki hjá því að mönnum, fólki, finnist komið vor í loftið. Hún er svo undraverð mildin í veðrinu. Í góulok. Og næstum er eins og vonin um betri tíð og blóm í haga heyri ímynduð hljóð mófugla seigja bí og langdregið dirrindí, þegar horft er út í þokuna sem liggur yfir. Þetta kom upp í hugann í morgun við Horngluggann sem og tvær línur úr bókinni Syndirnar sjö:
– Uuno, ertu hrifinn af smáfulgum?
– Það fer eftir sósunni.

Einn kafli bókarinnar Syndirnar sjö, eftir Jaakko Heinimäki, hefst á ofangreindri tilvitnun sem tekin er úr útvarpsviðtali um vormorgun við Uuno Turhapuro. Kaflinn heitir Nautnasýki.
Víst staldraði ég við orðin. Púff. Segja menn svona? Hvað um það. Bókin þessi barst mér einn daginn í vikunni að láni og vakti nafn hennar athygli. Það gerði efni hennar einnig.

Kaflarnir heita: Hroki, Ágirnd, Öfund, Heift, Munuð, Nautnasýki, Andleg leti. Bókin er mögnuð. Fólk ætti að lesa hana. Þar er mikið af tilvitnunum í hina mestu andans jöfra guðfræði og ritninga. Og fyrirbæri syndarinnar, syndanna, skoðuð frá nýju horni. Reyndar varð hún verðlaunabók, sem auðskilið er við lestur hennar. Þetta er annars lítil bók, 110 síður og gefin út af Bjarti í Svörtu línunni.

Ég tek mér bessaleyfi og ræni tveim tilvitnunum.
Kaflinn Ágirnd hefst á setningu hafðri eftir Imeldu Marcos:
„Ég átti ekki þrjú þúsund pör af skóm. Ég átti 1060.“

Hin er úr kaflanum Hroki:
Söfnuður einn í Austurbotni fékk vænt fjárframlag í hjálparsjóð kirkjunnar. Pretsurinn sagði frá þessu eftir prédikun og tók það fram að gefandinn vildi ekki láta nafns síns getið. Einhver ræskti sig frammi í kirkjunni. Maður einn stóð þar upp og sagði:
„Já, okkur konu minni þótti réttast að hafa þennan háttinn á.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.